mið 29. nóvember 2017 16:30
Magnús Már Einarsson
Íslenskir aðdáendur ósáttir við Stóra Sam - „Hann er sigin grásleppa"
Stóri Sam er ekki allra.
Stóri Sam er ekki allra.
Mynd: Getty Images
Haraldur Örn Hannesson formaður Everton klúbbsins.
Haraldur Örn Hannesson formaður Everton klúbbsins.
Mynd: Úr einkasafni
Gylfi er kominn með nýjan stjóra.
Gylfi er kominn með nýjan stjóra.
Mynd: Getty Images
Sam Allardyce er nýr stjóri Everton en þetta var tilkynnt í dag. Óhætt er að segja að ráðning hans falli misvel í kramið hjá stuðningsmönnum félagsins. Fótbolti.net hafði samband við nokkra harða Everton menn og fékk þeirra álit á tíðindum dagsins.



Viðar Guðjónsson, fyrrum leikmaður Fram
Yfirleitt langar mig í Sushi en stundum verður maður að sætta sig við plokkfisk. Allardyce er sigin grásleppa.

Þórður Snær Júlíusson, Kjarninn
Mér finnst þetta fullkomin niðurlæging. Svona svipað og þegar Trump var kosinn forseti Bandaríkjanna. Allir sem tengjast Everton, eða hafa taugar til félagsins, eru smættaðir og lítillækaðir með þessari ráðningu.
Í fyrsta lagi er Allardyce frekar ógeðfelldur náungi. Hann hefur m.a. verið staðinn að því að selja ráðgjöf um hvernig mætti komast framhjá reglum enska knattspyrnusambandsins um eignarhald þriðja aðila við kaup á leikmönnum, á meðan að hann var landsliðsþjálfari.
Í öðru lagi spilar hann drepleiðinlegan og forneskjulegan fótbolta sem ekkert lið með sómakennd ætti að bjóða upp á.
Í þriðja lagi ætlar hann að koma með Sammy Lee. Það er eins og að hleypa vopnuðum óvinahermanni ofan í bunkerinn þinn.
Í fjórða lagi þá sýnir það í hversu mikilli óreiðu þetta félag er í þegar að það líða næstum 40 dagar frá því að það rekur stjórann sinn og endar svo með því að ráða Sam Allardyce fyrir svívirðilegar upphæðir og á 18 mánaða samningi. Sem er 18 mánuðum of langur.
Í fimmta lagi þá drekkur hann hvítvín úr pint-glasi. Sem er villimennska á einhverju óskiljanlegu kaliberi.
En að öllu ofangreindu sögðu þá verður hann örugglega tekinn í sátt ef Everton vinnur Liverpool 10. desember. En þangað til ætla ég að halda í þá djúpstæðu ógleðis og fyrirlitningartilfinningu sem ráðning hans fyllir mig af.

Haraldur Örn Hannesson, eigandi BK kjúklings
Fyrst að Koeman náði ekki tilætluðum árangri og menn þurftu að skipta um stjóra að þá hafa verið önnur nöfn á undan Big Sam að mínu mati. Minn fyrsti kostur var alltaf Ancelotti eða Thomas Tuchel jafnvel. En þegar menn eru ekki að ná árangri þá er erfitt að ná í bestu mennina hvort sem það eru stjórar eða leikmenn. Það sem mér finnst samt verst í þessum fréttum er ráðningin á Sammy Lee hann hefur að mínu mati ekkert þarna að gera. En í lok dagsins þá mun maður alltaf styðja sitt lið fram í rauðan dauðann. Ef hann skilar sigrum þá muni ég kaupa sjálfur rauðvínið handa honum. Áfram Everton.

Halldór Bogason, leikmaður KV
Mér sýnist ekkert annað í boði en að fá Sam Allardyce. Erum í frjálsu falli eins og stendur og svo virðist sem enginn vilji stjórna Everton. Auðvitað væri skemmtilegra að fá Marco Silva eða Fonseca en af hverju ættu þeir að vilja koma ef maður er raunsær.

Anton Ingi Leifsson, Vísir
Úr því sem komið var held ég að þetta sé það besta í stöðunni. Hann hefur oftar en ekki skilað góðum árangri þar sem hann hefur starfað og eina sem Everton þarf núna er bara stig í pokann góða. Það verður svo talið upp úr honum næsta haust og vonandi nær Everton að klifra aðeins upp töfluna, í það minnsta fjarlægjast þennan botnpakka. Gylfi fær að taka nóg af aukaspyrnum og hornspyrnum ef gildin hans Allardyce verða við völd og ég spái því að við sjáum stoðsendingu frá Gylfa á laugardaginn gegn Huddersfield þar sem ástsælasti Everton-maður þjóðarinnar verður á vellinum, Garðar Ingi Leifsson.

Magnús Eyjólfsson, starfsmaður Nato
Sem stuðningsmaður Everton til rúmlega 30 ára hefur maður gengið í gegnum mörg niðurlægingarskeið með mörgum vafasömum stjórum. Hér held ég að botninum sé náð. Þrotið er algjört og það verður erfitt að horfa framan í fólk næstu vikur og mánuði.
Þetta var búið að vofa yfir í einhverja daga en ég laug því að sjálfum mér að þetta væri einhver stórkostleg flétta sem endaði með óvæntri ráðningu heimsklassa þjálfara. Eða í versta falli meðalgóðum Inkasso-þjálfara. Það sem við sitjum uppi með er maður sem ekki bara óþolandi, og spilar óþolandi leiðinlegan fótbolta, heldur var hann rekinn úr starfi landsliðsþjálfara eftir 67 daga fyrir að vera gjörspilltur. Til að fullkomna niðurlæginguna velur hann Liverpool manninn Sammy Lee sér til aðstoðar.
Það versta við þetta allt saman er að líklega eiga leikmenn liðsins ekkert betra skilið miðað við það sem þeir hafa sýnt á tímabilinu. Ég óttast einnig um Gylfa því sagan sýnir að enskir knattspyrnustjórar eru með öllu ófærir um að greina knattspyrnuhæfileika, samanber meðferð Tony Pulis á Eiði Smára. Líkast til mun Allardyce kaupa norður-írskan tréhest til að fylla hans stöðu. Það eina jákvæða við þetta er að það verður með öllu sársaukalaust að sniðganga enska boltann það sem eftir lifir tímabils.

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss
Gott að fá loks fastan þjálfara í brúna. Allardyce er með mikla reynslu og það er eftir að nýtast okkur í þeirri baráttu sem við erum í núna. En er ekki viss um að þetta sé rétti maðurinn til frambúðar svo að þetta verður forvitnilegt að sjá hvað gerist en þetta getur ekki mikið versnað.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner