þri 29. nóvember 2022 08:30
Elvar Geir Magnússon
„Þetta er lang svalasti gæinn á mótinu“
Luis Enrique, þjálfari Spánverja.
Luis Enrique, þjálfari Spánverja.
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
„Þetta er lang svalasti gæinn á mótinu. Spánverjarnir ógeðslega góðir, mæta að öllum líkindum Brössum í 8-liða úrslitum 9. desember. Það verður leikur!" skrifar Gunnar Birgisson, lýsandi á RÚV, á Twitter.

Lang svalasti gæinn á HM að mati Gunnars er Luis Enrique, landsliðsþjálfari Spánar. Enrique hefur litað mótið innan sem utan vallar.

Hann hefur farið þá leið að taka við spurningum frá stuðningsmönnum heima á Spáni í gegnum streymisveituna Twitch. Þar hefur verið stutt í húmorinn hjá honum og hann verið mjög opinn þegar hann svarar hinum ýmsu spurningum. Hann hefur meðal annars fengið spurningu um hvort leikmenn hans megi stunda kynlíf meðan á mótinu stendur.

Auk skemmtunar og húmors hefur Enrique einnig verið opinn með persónulega hluti. Leikdagurinn gegn Þýskalandi á sunnudag var tilfinningaríkur fyrir hann, dóttir hans Xana hefði átt 13 ára afmæli en hún lést úr krabbameini þegar hún var níu ára.

Meðal leikmanna í spænska liðinu er Ferran Torres sem er tengdasonur Enrique.

„Það er pressa að velja Ferran Torres. Annars mun dóttir mín koma á eftir mér og hálshöggva mig!" sagði Enrique kíminn á fréttamannafundi.

Innan vallar hefur spænska liðið síðan verið stórskemmtilegt en það mætir Japan á fimmtudaginn í síðasta leik sínum í riðlakeppninni.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner