Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 30. apríl 2020 18:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Souness og Le Tissier fóru yfir Ali Dia söguna: Hann var vonlaus
Ali Dia.
Ali Dia.
Mynd: Getty Images
Graeme Souness hér með Kenny Dalglish.
Graeme Souness hér með Kenny Dalglish.
Mynd: Getty Images
Matt Le Tissier.
Matt Le Tissier.
Mynd: Getty Images
Sagan af Ali Dia er mjög fræg. Árið 1996 átti Ali Dia eina frægustu frammistöðu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Hann lék þá 53 mínútur fyrir Southampton gegn Leeds United.

Dia, sem var 31 árs gamall, hafði fengið samning hjá Southampton eftir að einhver hringdi í Graeme Souness, knattspyrnustjóra félagsins á þeim tíma, og þóttist vera George Weah, sem var á sínum tíma einn besti leikmaður heims.

Maðurinn í símanum sagði að Dia væri frændi sinn og gaf honum öll sín meðmæli. Gengið var beint í gildruna og Dia, sem hafði spilað í neðri deildum Þýskalands og Frakklands, var skyndilega kominn með samning frá ensku úrvalsdeildarfélagi.

Dia hafði aðeins mætt á eina æfingu þegar hann kom af bekknum gegn Leeds vegna meiðsla. Frammistaða Dia var í einu orði sagt skelfileg. Það skelfileg að hann var tekinn aftur af velli. Það var alveg ljóst að þessi leikmaður hafði ekkert fram að færa í þessum styrkleikaflokki. Leeds vann 2-0.

Af þessari sögu hefur verið hlegið í meira en tvo áratugi. Souness starfar í dag sem sparkspekingur á Sky Sports og hann ræddi aðeins þessa sögu í The Football Show... ásamt Matt Le Tissier, fyrrum sóknarmanni Southampton.

„Þetta er frábær saga, og þetta er fyndin saga," segir Souness. „Þetta er ekki það sem þú lest eða heyrir vanalega. Það fékk einhver símtal hjá félaginu um að frændi George Weah væri á Englandi og væri að leita sér að félagi. Hann vildi koma á reynslu. Við vorum með lítinn hóp og vorum alltaf að fá menn inn á reynslu."

„Þessi gæi mætir og allir þeir sem þekkja fótbolta vita það á fyrstu fimm mínútunum hvort að leikmaður geti spilað eða ekki. Það var mánudagsmorgun og við sögðum að hann væri ekki fyrir okkur; hann var vonlaus. Við vorum hins vegar ekki nægilega margir til að spila átta gegn átta á æfingum. Við ákváðum því að halda honum í viku og eftir því sem leið á vikuna þá meiddust fleiri leikmenn."

„Við vorum að spila gegn Leeds á föstudegi og Matt var eini sóknarmaðurinn okkar sem var heill heilsu. Það var allt Matt að kenna því hann entist bara í 20 mínútur. Ég leit á bekkinn og hugsaði með mér hvað ég gæti gert. Þar var miðvörður og tveir bakverðir. Við enduðum að setja hann (Dia) á bekkinn og það versta sem gat gerst var að hann myndi koma inn á, hlaupa um og skapa usla. Þegar Matt meiddist þá kom hann inn á."

„Það var eins og hann hefði aldrei verið á fótboltavelli áður. Sagan segir að við vorum blekktir af fólki, en það er ekki satt. Við tókum ákvörðun með hann eftir fimm mínútur, en sagan er góð. Þetta er allt Matt að kenna fyrir að meiðast."

Dia spilaði eftir þetta í utandeildunum á Englandi með Gateshead og Spennymoor United. Lítið hefur hins vegar frést af honum undanfarin ár.

Le Tissier fannst lítið varið í Dia eins og Souness. „Ég hélt að hann hefði unnið einhverja keppni til þess að koma og æfa með okkur," sagði sóknarmaðurinn fyrrverandi. „Þegar hann mætti svo í leikinn á laugardeginum hugsaði ég með mér, 'þetta hefur verið góð keppni fyrst hann fær að heyra ræðuna fyrir leik líka'."

„Ég var leikmaðurinn sem var skipt út af fyrir mögulega versta leikmann í sögu ensku úrvalsdeildarinnar."

Athugasemdir
banner
banner