Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 30. september 2019 23:30
Ívan Guðjón Baldursson
Stuðningsmenn Milan fóru fyrr heim í fyrsta sinn á öldinni
Mynd: Getty Images
Ástandið hjá AC Milan er afar slæmt um þessar mundir og eru hávær mótmæli í gangi innan helstu stuðningsmannahópa félagsins.

Stuðningsmenn Milan hafa reglulega mótmælt slæmu gengi félagsins en þeir gengu fyrr af San Siro í fyrsta sinn á þessari öld er Milan tapaði 1-3 gegn Fiorentina í vikunni.

Þúsundir stuðningsmanna flykktust af pöllunum þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og endurspeglaðist líðan þeirra í frammistöðu leikmanna sem reyndu varla að minnka muninn á lokakaflanum. Þess í stað leyfðu þeir andstæðingunum að senda boltann á milli sín þar til tíminn rann út.

„Þetta er afar sársaukafullt fyrir alla sem elska AC Milan. Við munum ná fyrri hæðum aftur en það mun taka tíma," segir Paolo Maldini, goðsögn hjá Milan sem starfar í stjórn félagsins.

Milan er komið með sex stig úr sex umferðum á upphafi tímabils. Báðir sigrar liðsins komu gegn nýliðum deildarinnar og voru afar tæpir.
Athugasemdir
banner
banner