FH-ingar eru komnir áfram í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins eftir sigur á KA í Kaplakrika í kvöld.
Eina mark leiksins kom eftir 19 mínútur og var það Halldór Orri Björnsson sem var þar að verki. „FH komið yfir og enn og aftur lítur Martinez illa út í sumar. Halldór skaut í varnarmann, fékk boltann aftur og skaut að því virðist nánast undir Martinez og skorar hér fyrsta mark leiksins," sagði Egill Sigþússon, fréttaritari okkar, í beinni textalýsingu þegar Halldór skoraði.
FH-ingar voru heilt yfir sterkari í leiknum og náðu að sigla sigrinum nokkuð þægilega í hús.
FH komst í úrslitaleikinn í fyrra og tapaði þá fyrir ÍBV. Þeir eru núna komnir í 8-liða úrslit ásamt sex öðrum liðum. Það kemur í ljós hvert áttunda og síðasta liðið inn í 8-liða úrslitin verður eftir rúman klukkutíma. Kári og Víkingur R. spila um það á Akranesi.
Dregið verður í 8-liða úrslit í markaþætti Mjólkurbikarsins á Stöð 2 Sport síðar í kvöld.
Athugasemdir



