banner
   fim 31. október 2019 20:19
Elvar Geir Magnússon
Yfirlýsing frá Xhaka: Mér og fjölskyldu minni hótað
Granit Xhaka, fyrirliði Arsenal.
Granit Xhaka, fyrirliði Arsenal.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Granit Xhaka fyrirliði Arsenal hefur sent frá sér yfirlýsingu til stuðningsmanna liðsins.

Eins og flestir vita var baulað á Xhaka þegar hann var tekinn af velli í jafnteflisleik gegn Crystal Palace um síðustu helgi. Xhaka brást reiður við, sendi merkjagjöf í átt að stúkunni og kallaði 'fokk off'. Hann reif sig svo úr treyjunni áður en hann óð beint inn í klefa.

Stuðningsmenn Arsenal voru allt annað en sáttir við hegðun fyrirliðans og kallað hefur verið eftir því að hann verði sviptur fyrirliðabandinu.

„Eftir að hafa tekið mér tíma í að velta því fyrir mér sem átti sér stað á sunnudaginn vil ég koma með útskýringu," segir Xhaka í yfirlýsingunni.

Hann segir að atburðarásin síðasta sunnudag hafi haft mikil áhrif á sig. Hann segist elska félagið og leggi sig alltaf 100% fram innan sem utan vallar.

„Mér hefur fundist ég misskilinn meðal stuðningsmanna og ljót ummæli á samfélagsmiðlum síðustu vikur og mánuði hafa legið þungt á mér. Fólk hefur sagt hluti eins og: 'Við munum fótbrjóta þig', 'drepa konuna þína' og 'vonum að dóttir þín fái krabbamein'."

„Það ýtti við mér og þegar ég fékk höfunina á sunnudaginn þá sauð upp úr hjá mér. Ég missti stjórn á mér og sýndi stuðningsmönnum sem styðja liðið á jákvæðan hátt óvirðingu. Það var ekki ætlun mín og ég biðst afsökunar," segir Xhaka.

„Ég vona að við getum aftur sýnt gagnkvæma virðingu og munum eftir því af hverju við urðum ástfangin af þessari íþrótt upphaflega. Færumst fram á veginn saman með jákvæðum leiðum. Granit."

Arsenal mætir Wolves á laugardaginn en óvíst er hvort Xhaka verði með í þeim leik.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner