lau 31. október 2020 15:55
Ívan Guðjón Baldursson
Guardiola: Ferli mínum hjá Barcelona er lokið
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola sat fyrir svörum eftir 0-1 sigur Manchester City gegn Sheffield United í fyrsta leik dagsins í enska boltanum.

Guardiola var ósáttur með færanýtingu sinna manna en þó ánægður með frammistöðuna og hrósaði hann varnarlínunni að leikslokum.

„Við spiluðum mjög vel og sköpuðum mikið af færum en áttum í erfiðleikum með að setja boltann í netið. Við áttum 16 marktilraunir og 8 þeirra hæfðu rammann, sem er mjög mikið gegn þessu liði. Sheffield eru virkilega sterkir á vængjunum og með mikla þolinmæði en þeir fengu bara eitt dauðafæri í leiknum. Þetta var þriðji útileikurinn okkar á sjö dögum," sagði Guardiola.

„Ég er ánægður með markið sem Kyle skoraði, hann er frábær leikmaður og er næstum búinn að spila allar mínúturnar á tímabilinu. Hann er stuðningsmaður Sheffield og elskar félagið en þetta mark sem hann skoraði var gríðarlega mikilvægt fyrir okkur.

„Aymeric og Ruben voru frábærir í dag og hafa verið að spila virkilega vel saman. Við lentum í erfiðleikum með varnarlínuna á síðustu leiktíð og vonandi eru þau vandræði að baki. Það er ljóst að þeir tveir geta ekki spilað alla leikina á tímabilinu, aðrir leikmenn verða líka að stíga upp inn á milli."


Guardiola var svo spurður út í orðróm sem segir hann íhuga endurkomu til Barcelona eftir tímabilið, þegar samningur hans við Man City rennur út.

„Ferli mínum sem þjálfari Barcelona er lokið, það er mikið af ótrúlega hæfileikaríkum þjálfurum sem henta í starfið. Ronald Koeman er stórkostlegur þjálfari.

„Tíma mínum hjá Barcelona er lokið. Ég mun snúa aftur til að horfa á einhverja leiki en ég er ánægður í starfinu sem ég er í núna. Ég þrái að gera vel hér í Manchester, það er það sem skiptir mestu máli."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner