lau 31. október 2020 09:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: RÚV 
Þórdís Hrönn: Ekki rétt að fella lið sem hefur farið þrisvar í sóttkví
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í gær tilkynnti KSÍ að keppni í Íslandsmótinu væri hætt, mótinu væri lokið. Einungis 4. deild karla var lokið af deildarkeppnum og því þurfti að grípa til reglugerðar. Samkvæmt reglugerð KSÍ var lokaniðurstaða deildakeppna útkljáð út frá meðalfjöldastiga hvers liðs úr þeim leikjum sem leiknir hefðu verið.

Út frá þeim reikningum enda KR og FH í neðstu sætum Pepsi Max-deildar kvenna. KR hafði einungis leikið fjórtán leiki í mótinu í sumar.

Sjá einnig:
Þjálfari KR kallar eftir því að fjölgun liða verði skoðuð
KR-ingar reiðir - Eru að skoða sín mál

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir var í kjölfar ákvörðunnar KSÍ í viðtali við RÚV.

„Ég sá þessar fréttir bara á netinu heima. Mann grunaði þetta nú, svona miðað við það sem kom fram á fundinum í dag. Maður var búinn að búa sig undir það versta en vona það besta," sagði Þórdís við RÚV.

„Við áttum eftir fjóra leiki sem áttu að vera spilaðir á 10 dögum, sem er auðvitað galið, eins og allt okkar sumar. Við höfum farið í sóttkví, fengið einn til tvo daga til að æfa, spilað 90 mínútna leik, annan leik eftir þrjá daga, aftur í sóttkví. Svona er sumarið okkar búið að vera," bætti Þórdís við og segir svo sína skoðun á niðurstöðu gærdagsins.

„Mér persónulega finnst að það sé rétt að slaufa tímabilinu. Það er réttast í stöðunni fyrir samfélagið og það sem er í gangi, það eiga allir að leggjast á eitt og fótboltinn gengur ekki fyrir. En það er ekki rétt að fella lið sem hefur farið þrisvar í sóttkví og stendur ekki jöfnum fæti."

„Það á frekar að fjölga liðum í deildinni. Ég myndi segja nákvæmlega sama ef ég hefði verið að spila með liði sem hefði ekki fallið."

„Það á að fjölga liðum úr 10 í 12, bæði fyrir okkur og fyrir FH sem líka þarf að spila í 1. deildinni á næsta ári."

„Ég skil ekki af hverju við getum ekki haft 12 liða deild eins og karlarnir,"
sagði Þórdís. Nánar var rætt við Þórdís í grein sem birtist á vef RÚV.
Athugasemdir
banner
banner
banner