mán 02.júl 2012
Óli Kristjáns: Verður erfitt fyrir Sigmar og okkur að sofna
,,Miðað við færi og spilamennsku vildi ég fá meira, ég vildi fá þrjú stig," sagði Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks eftir 1-1 jafntefli liðsins gegn Fylki í Árbænum í kvöld.

Jóhann Þórhallsson skoraði jöfnunarmark Fylkis eftir að Sigmar Ingi Sigurðarson náði ekki að halda langskoti sem Davíð Þór Ásbjörnsson átti.

,,Það er alltaf vont að horfa á eftir stigum og það er bara þannig ef þú ert markvörður eða varnarmaður þá kostar það, það er dýrt. Það verða varnarmenn og markmenn að lifa við. Það verður erfitt fyrir Sigmar og okkur að sofna en við vöknum hressir á morgun," sagði Ólafur sem vildi sjá Sigmar slá skot Davíðs til hliðar.

,,Hann á að slá hann í burtu. Þetta er erfiður bolti að grípa og mér fannst hann eiga að slá hann. Sigmar veit manna best sjálfur að hann gerði mistök og það þarf ekkert að nudda honum upp úr því."

Sigmar stóð í marki Breiðabliks í dag þar sem Ingvar Þór Kale fékk rauða spjaldið undir lokin í bikarleiknum gegn KR í síðustu viku.

,,Það sem mér finnst biturt er að við missum þann markmann sem var búinn að leika í markinu út af með rautt spjald í síðasta leik. Það var ekkert við þá ákvörðun dómarans að athuga þegar það skeði í leiknum því hann metur það svo að leikmaðurinn eigi að fá rautt spjald. Eftir á þegar við sjáum að það var rangur dómur þá finnst mér refsingin ansi hörð bæði fyrir leikmann og lið þegar þú getur ekki notað leikmann sem var ranglega vikið af leikvelli."

Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.