sun 15.des 2013
David Moyes: Vorum nálægt því að ganga frá risakaupum
David Moyes.
Ed Woodward.
Mynd: Getty Images

David Moyes, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur greint frá því að félagið hafi verið nálægt því að fá til sín mjög þekktan leikmann í sumar.

Rauðu Djöflarnir voru orðaðir við fjölmarga leikmenn í sumar og gerðu meðal annars nokkur tilboð í Cesc Fabregas, miðjumann Barcelona.

United endaði hinsvegar á að kaupa einungis Marouane Fellaini frá Everton, en Moyes segir að félagið hafi verið virkilega nálægt því að ganga frá risakaupum.

,,Við vorum nálæt því að ganga frá mjög, mjög stórri undirskrift," sagði Moyes, sem fékk á sig talsverða gagnrýni fyrir leikmannaviðskipti sumarsins.

,,Það er auðvelt að segja núna: 'jæja, þú gerðir ekkert'.Við vorum hinsvegar mjög nálægt því að ganga frá risakaupum þar sem félagið hefði virkilega sýnt hvers virði það er."

,,Við höfum peninga og félagið er viljugt til að eyða þeim. Það er engin spurning um það. Í raun vorum við nálægt nokkrum stórum kaupum og ég verð að segja að Ed Woodward (framkvæmdastjóri United) hafi lagt mjög mikið á sig til að ná þeim."