mið 18.nóv 2015
Arnór Ingvi áfram orðaður við Villa
Arnór Ingvi átti stórkostlegt tímabil með Norrköping.
Arnór Ingvi Traustason er enn undir smásjá Aston Villa samkvæmt Birmingham Mail.

Arnór átti ótrúlegt tímabil með Norrköping í sænsku deildinni sem vann sinn fyrsta titil í 23 ár.

Arnór skoraði sjö mörk af kantinum og átti tíu stoðsendingar og komst um leið í íslenska landsliðið.

Arnór, sem er aðeins 22 ára gamall, hefur áður tjáð sig um orðróma sem tengja hann við ensku úrvalsdeildina og sagði þá að mamma sín hafði lesið um áhuga úrvalsdeildarliða á undan honum sjálfum.

Aston Villa er á botni ensku úrvalsdeildarinnar með fimm stig eftir tólf umferðir en útlitið er ekki kolsvart, enda þótti liðið standa sig vel undir stjórn Remi Garde í markalausu jafntefli gegn Manchester City í síðustu umferð.