fös 31.ágú 2018
Viðar Örn til Rostov (Staðfest)
Farinn til Rússlands.
Rússneska félagið Rostov hefur keypt framherjann Viðar Örn Kjartansson í sínar raðir frá Maccabi Tel Aviv í Ísrael. Viðar er fjórði Íslendingurinn hjá Rostov en fyrir hjá félaginu eru Björn Bergmann Sigurðarson, Ragnar Sigurðsson og Sverrir Ingi Ingason.

Viðar skrifaði undir fjögurra ára samning við Rostov í dag en fleiri félög hafa sýnt honum áhuga í sumar.

„Ég hef átt tvö yndisleg ár hér hjá Maccabi og vil þakka liðsfélögum mínum, stuðningsmönnum og öllum hjá félaginu fyrir. Núna tek ég næsta skref á ferli mínum en ég verð alltaf stuðningsmaður Maccabi og borgarinnar Tel Aviv," sagði Viðar.

Viðar Örn er 28 ára gamall en hann hefur leikið með Maccabi Tel Aviv undanfarin tvö ár en á fyrra tímabili sínu með liðnu varð hann markakóngur í Ísrael.

Viðar ólst upp á Selfossi en hann hefur á ferli sínum einnig leikið með Fylki, Valerenga, Jiangsu Suning og Malmö.

Í síðustu viku var Viðar valinn í íslenska landsliðshópinn á ný fyrir komandi leiki gegn Belgíu og Sviss í Þjóðadeildinni.