mán 01.ágú 2005
Baros ekki til Schalke-Áfram hjá Liverpool (Uppfært)
Ekkert verður af því að tékkneski framherjinn Milan Baros gangi til liðs við Schalke frá Liverpool en þýska félagið tilkynnti nú í dag að fallið hafi verið frá félagaskiptum og í kjölfar þess sagði Rafael Benítez að hann væri ekki að leitast eftir þvi að selja hann.

Schalke vildi fá Baros á láni en Liverpool vildi fá fulla greiðslu fyrir hann, um 8 milljónir Evra að því talið er.

,,Fyrir okkur, er málið lokað," sagði Rudi Assauer framkvæmdastjóri Schalke í dag. ,,Við höfum ekki efni á slíkri upphæð. Við gætum það bara ef við hefðum tryggt sæti í Meistaradeildinni næstu þrjú árin."

,,Félagið vill bara selja leikmanninn og hefur ekki áhuga á lánssamning. En við höfum ekki efni á 8 milljónum evra eða 10 milljónum. Það er vonlaust og því mun Milan Baros ekki ganga til liðs við Schalke 04" bætti hann við eftir símafund með Liverpool.

Rafael Benítez tjáði sig einnig um málefni Baros í dag en hann sagði: ,,Baros er enn okkar leikmaður. Sum félög hafa áhuga á leikmanninum en við höfum aldrei sagt að við værum óánægðir með Milan og höfum ekki sagt að við viljum selja hann."

,,Við erum með góða framherja hérna, Fernando Morientes, Djibril Cisse, Peter Crouch, Anthony Le Tallec, Neil Mellor, Florent Sinama Pongolle og Baros. Stefnan er að nota þá alla öllum keppnunum."


Schalke enduðu í öðru sæti Bundesligunnar á síðustu leiktíð. Þeir keyptu um helgina danska framherjann Sören Larsen frá Íslendingaliðinu Djurgarden í Svíþjóð og gerðu við hann fjögurra ára samning.