fim 18.apr 2019
Mane skorar oftar en Ronaldo og Messi í útsláttarkeppninni
Sadio Mane hefur verið í miklu stuði með Liverpool á seinni hluta tímabils, bæði í deild og Meistaradeild.

Mane hefur verið funheitur í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar og skorar oftar heldur en Lionel Messi og Cristiano Ronaldo.

Mane hefur aðeins gert 10 mörk í útsláttarkeppninni en það reiknast sem eitt mark á hverjar 95 mínútur, sem er styttri tími á milli marka heldur en Ronaldo og Messi geta stært sig af.

Ronaldo skorar á 107 mínútna fresti á meðan Messi gerir eitt mark hverjar 129 mínútur. Mane spilaði sinn fyrsta leik í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar í fyrra.

Mane skoraði í 1-4 sigri gegn Porto í vikunni og er kominn með 24 mörk í öllum keppnum á tímabilinu. Hann er í kapphlaupinu um að vera markahæsti maður ensku úrvalsdeildarinnar með 18 mörk en Mohamed Salah og Sergio Agüero leiða kapphlaupið með 19.