fim 25.apr 2019
Ítalía: Atalanta í úrslit eftir sigur á Fiorentina
Alejandro Gomez og Josip Ilicic sáu um Fiorentina í kvöld.
Atalanta (5)2-1(4) Fiorentina
0-1 Luis Muriel ('3)
1-1 Josip Ilicic ('14, víti)
2-1 Alejandro Gomez ('69)

Atalanta tók í kvöld á móti Fiorentina í seinni leik liðanna í undanúrslitum ítölsku bikarkeppninnar. Fyrri leikur liðanna endaði með 3-3 jafntefli í Flórens.

Luis Muriel kom gestunum í Fiorentina yfir strax á 3. mínútu með marki eftir undirbúning frá Federico Chiesa.

Josip Ilicic jafnaði leikinn rúmum tíu mínútum síðar fyrir Atalanta þegar hann skoraði fram hjá Alban Lafont, markverði Fiorentina, úr vítaspyrnu.

Ilicic var svo aftur á ferðinni á 69. mínútu þegar hann lagði upp fyrir Alejandro Gomez. Svolítill heppnisstimpill var á marki Gomez en þrátt fyrir að fara á mitt mark Fiorentina náði Lafont ekki að verja skot Gomez.

Í gær vann Lazio sigur á AC Milan í hinni undanúrslitaviðureigninni. Því mætir Atalanta liði Lazio í úrslitaleiknum sem fer fram á Ólympíuleikvanginum í Róm, sem er einmitt heimavöllur Lazio, þann 15. maí.