mið 22.maí 2019
„Nota íþróttir til að fela mannréttindabrot"
Ólympíuleikvangurinn í Baku, Aserbaídsjan.
Amnesty Internanional segir að Aserbaídsjan sé meðal landa sem reyni að nota íþróttaviðburði til að beina athyglinni frá mannréttindabrotum sem framin séu í landinu.

Amnesty International eru alþjóðleg samtök sem berjast fyrir mannréttindum um allan heim.

Úrslitaleikur Chelsea og Arsenal í Evrópudeildinni mun fara fram í Bakú, höfuðborg Aserbaídsjan. UEFA hefur fengið mikla gagnrýni fyrir staðsetninguna.

Henrikh Mkhitaryan, armenskur leikmaður Arsenal, mun ekki ferðast í leikinn.

Í yfirlýsingu Amnesty segir að í Aserbaídsjan sé reynt að þagga niður í fjölmiðlamönnum og samkynhneigt fólk verði fyrir áreiti.

„Það er of algengt að ríkisstjórnir noti stórmót í íþróttum til að leyna mannréttindabrotum. Úrslitaleikur Chelsea og Arsenal er nýjasta áminningin um það," segir í yfirlýsingu Amnesty.

Þar er sagt að yfir 150 manns séu í fangelsi í landinu af pólitískum ástæðum.

Ofan á þeta hefur UEFA verið gagnrýnt fyrir að velja Bakú fyrir úrslitaleikinn vegna þess hversu erfitt og dýrt sé fyrir stuðningsmenn að komast þangað. Chelsea og Arsenal fá bara um 6 þúsund miða hvort félag fyrir stuðningsmenn sína, þrátt fyrir að leikvangurinn taki 69 þúsund manns.

UEFA hefur varið sig með því að segja að skylda sín sé að breiða út fótboltann um alla heimsálfuna.