þri 23.júl 2019
Pepsi Max-kvenna: Fylkir vann sannfærandi gegn Þór/KA - ÍBV endaði þriggja leikja taphrinu
Hulda Hrund skoraði annað mark Fylkis í kvöld.
Heil umferð fer í kvöld fram í Pepsi Max-deild kvenna. Fyrstu tveimur leikjum kvöldsins var rétt í þessu að ljúka.

Á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum tóku heimastúlkur í ÍBV á móti Keflavík.

ÍBV komst yfir á 27. mínútu með marki frá Brenna Lovera sem gekk til liðs við félagið á dögunum. Sophie McMahon Groff jafnaði leikinn fyrir Keflavík rúmum tíu mínútum seinna eftir laglegan undirbúning frá Sveindísi Jane Jónsdóttur. 1-1 var staðan í hálfleik.

ÍBV komst aftur yfir snemma í seinni hálfleik. Brenna Lovera átti nú stoðsendinguna þegar Sigríður Lára Garðarsdóttir, Sísí, skoraði eftir frábært samspil Eyjakvenna. Þá skoraði Cloe Lacasse þriðja mark ÍBV þegar rúmar tíu mínútur lifðu leiks.

Sophie bætti við öðru marki sínu fyrir Keflavík þegar sjö mínútur lifðu leiks en nær komst Keflavík ekki.

Langþráður sigur ÍBV staðreynd en liðið hafði ekki unnið í síðustu þremur leikjum sínum.

Á Würth vellinum í Árbæ tók Fylkir á móti vængbrotnu liði Þór/KA. Þór/KA datt frekar óvænt úr Mjólkurbikarnum um liðna helgi þegar KR sló þær út og komst í úrslit. Þór/KA hefur því eingöngu deildina til þess að einbeita sér að. Í lið Þór/KA vantaði þær Bryndísi Láru Hrafnkelsdóttur, Biöncu Sierra, Söndru Mayor og Örnu Sif Ásgrímsdóttur sem verður að teljast mikil blóðtaka.

Ída Marín Hermanssdóttir kom Fylki yfir á 11. mínútu og Hulda Hrund Arnarsdóttir sá til þess að Fylkir leiddi verðskuldað 2-0 í hálfleik þar sem Fylkir hafði verið töluvert sterkari aðilinn.

Margrét Björg Ástvalsdóttir kom Fylki í 3-0 á 72. mínútu og innsiglaði þar með verðskuldaðan sigur Fylkis í Árbænum.

Fylkir sendir KR í fallsæti með sigrinum, Þór/KA tapaði sínum þriðja leik í röð ef bikartapið er talið með, ÍBV endaði taphrinu og Keflavík er í bullandi fallbaráttu.

Fylkir 3 - 0 Þór/KA
1-0 Ída Marín Hermannsdóttir ('11 )
2-0 Hulda Hrund Arnarsdóttir ('44 )
3-0 Margrét Björg Ástvaldsdóttir ('72 )
Lestu nánar um leikinn

ÍBV 3 - 2 Keflavík
1-0 Brenna Lovera ('27 )
1-1 Sophie Mc Mahon Groff ('38 )
2-1 Sigríður Lára Garðarsdóttir ('51 )
3-1 Cloé Lacasse ('79 )
3-2 Sophie Mc Mahon Groff ('83)
Lestu nánar um leikinn