fim 15.ágú 2019
Pepsi Max-kvenna: Arna Sif hetja Þórs/KA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Þór/KA fékk Keflavík í heimsókn í Pepsi Max-deild kvenna í dag og bauð leikurinn upp á mikla skemmtun.

Þór/KA stjórnaði spilinu en gestirnir úr Keflavík voru mun hættulegri í sínum aðgerðum í fyrri hálfleik og leiddu 0-1 í leikhlé.

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði þá glæsilegt mark með þrumufleyg af 20 metra færi.

Seinni hálfleikurinn var öðruvísi en sá fyrri og keyrðu Akureyringar á gestina af fullum krafti. Arna Sif Ásgrímsdóttir jafnaði með skalla í upphafi síðari hálfleiks og skoraði Andrea Mist Pálsdóttir skömmu síðar og staðan orðin 2-1.

Arna Sif skoraði annað skallamark á 65. mínútu og gerði þar með út um leikinn. Keflvíkingar sáu ekki til sólar í síðari hálfleik og verðskuldaður sigur Þórs/KA staðreynd.

Þór/KA er í baráttu við Selfoss og Fylki um þriðja sætið á meðan Keflavík var að tapa sínum fjórða leik í röð í fallbaráttunni.

Þór/KA 3 - 1 Keflavík
0-1 Sveindís Jane Jónsdóttir ('36)
1-1 Arna Sif Ásgrímsdóttir ('50)
2-1 Andrea Mist Pálsdóttir ('57)
3-1 Arna Sif Ásgrímsdóttir ('65)

Í Garðabæ var staðan markalaus í leikhlé þegar Stjarnan tók á móti ÍBV. Jana Sól Valdimarsdóttir kom Stjörnunni þó yfir í upphafi síðari hálfleiks eftir góðan undirbúning frá Sigrúnu Ellu Einarsdóttur.

Eyjastúlkur gerðu verðskuldað jöfnunarmark eftir sjaldgæf mistök hjá Birtu Guðlaugsdóttur í marki Stjörnunnar. Brenna Lovera nýtti sér mistökin og skallaði boltann í autt markið.

Það leið þó ekki á löngu þar til Stjarnan tók forystuna á nýjan leik. Sigrún Ella var þá með góðan undirbúning en skot Jönu Sólar fór af varnarmanni. Þaðan fór hann svo í stöngina og barst til Hildigunnar Ýr Benediktsdóttur sem skoraði.

ÍBV reyndi að jafna en náði ekki að koma sér í gott færi og lokatölur 2-1. Stjarnan er um miðja deild, fjórum stigum fyrir ofan ÍBV sem er í fallbaráttu.

Stjarnan 2 - 1 ÍBV
1-0 Jana Sól Valdimarsdóttir ('47)
1-1 Brenna Lovera ('68)
2-1 Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir ('72)

Það tekur tíma fyrir stöðutöfluna að uppfærast.