fös 11.okt 2019
Leikirnir sem eru eftir í undankeppninni - Innbyrðis viðureignir gilda
Ísland og Frakkland mætast á Laugardalsvelli í kvöld.
Leikur Íslands og Tyrklands í nóvember gæti ráðið miklu.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.

Þrátt fyrir tap gegn Albaníu í síðasta leik eru möguleikar Íslands á sæti á EM á næsta ári ennþá vel á lífi. Ísland er núna þremur stigum á eftir Tyrkjum og Frökkum en allar þessar þjóðir eiga eftir að mætast innbyrðis í lokaumferðunum.

Ísland mætir Frakklandi á Laugardalsvelli í kvöld. Frakkar mæta Tyrkjum á mánudag og Ísland mætir Tyrkjum á útivelli í nóvember.

Endi tvö lið jöfn gilda innbyrðis viðureignir og markatala í innbyrðis leikjum. Þar er Ísland með yfirhöndina gegn Tyrkjum eftir 2-1 sigur á Laugardalsvelli í júni. Með hagstæðum úrslitum gegn Tyrkjum í nóvember gæti Ísland því tryggt sig áfram ef önnur úrslit liðanna verða svipuð það sem eftir lifir í keppninni.

Ef Ísland nær ekki tveimur efstu sætunum á liðið ennþá möguleika á sæti á EM en liðið fer þá í umspil tengt Þjóðadeildinni. Það umspil verður í mars á næsta ári.

Staðan í riðlinum
1. Frakkland 15 stig
2. Tyrkland 15 stig
3. Ísland 12 stig
4. Albanía 9 stig
5. Moldóva 3 stig
6. Andorra 0 stig

Leikirnir sem eru eftir í riðlinum:

Í kvöld
Ísland - Frakkland
Tyrkland - Albanía
Andorra - Moldóva

Á mánudaginn
Frakkland - Tyrkland
Ísland - Andorra
Moldóva - Albanía

Fimmtudagur 14. nóvember
Tyrkland - Ísland
Albanía - Andorra
Frakkland - Moldóva

Sunnudagur 17. nóvember
Albanía - Frakkland
Moldóva - Ísland
Tyrkland - Andorra