lau 15.feb 2020
Tyrkland: Theodór Elmar lagði upp og gerði sigurmarkið
Hatayspor 2 - 3 Akhisarspor
1-0 M. Aydin ('7)
1-1 O. Ayik ('10)
1-2 E. Celenk ('42)
1-3 Theodór Elmar Bjarnason ('44)
2-3 M. Aydin ('78)

Theodór Elmar Bjarnason átti stórleik er Akhisarspor heimsótti topplið Hatayspor í tyrknesku B-deildinni í dag.

Theodór byrjaði á miðri miðjunni og lét til sín taka á síðustu mínútunum fyrir leikhlé, í stöðunni 1-1.

Landsliðsmaðurinn lagði fyrst upp mark fyrir Erhan Celenk á 42. mínútu og skoraði svo sjálfur skömmu síðar. Staðan 1-3 í hálfleik.

Heimamenn minnkuðu muninn á 78. mínútu og var Theodór tekinn útaf skömmu síðar. Meira var ekki skorað í leiknum og þrjú stig í höfn fyrir Elmar og félaga.

Akhisarspor er í umspilssæti eftir sigurinn, með 32 stig eftir 22 umferðir. Þessi sigur markar vonandi enda á hrikalegt gengi Akhisarspor sem hefur ekki unnið leik síðan 7. desember. Á þessum mánuðum hefur liðið tapað þremur og gert fimm jafntefli.