mán 24.feb 2020
Lengjubikar kvenna: Breiðablik vann Val í stórleik
Rakel skoraði tvennu fyrir Blika.
Valur 2 - 3 Breiðablik
0-1 Rakel Hönnudóttir
0-2 Sveindís Jane Jónsdóttir
0-3 Rakel Hönnudóttir
1-3 Fanndís Friðriksdóttir
2-3 Elín Metta Jensen

Breiðablik vann góðan sigur á Val þegar liðin mættust í stórleik í Lengjubikar kvenna í kvöld. Leikið var á Origo-vellinum að Hlíðarenda.

Þessi lið börðust um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra og að lokum hafði Valur betur í þeirri baráttu. Í kvöld höfðu Blikar betur.

Rakel Hönnudóttir, sem kom til Breiðabliks frá Reading í vetur, skoraði fyrsta mark leiksins. Sveindís Jane Jónsdóttir, efnilegur leikmaður sem kom frá Keflavík, gerði annað mark Blika fyrir leikhlé.

Rakel skoraði aftur fyrir Blika og kom þeim í 3-0 eftir frábæra sendingu frá Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur. Valur náði að bíta frá sér eftir það og tókst að minnka muninn í 3-2. Mörk Vals gerðu Fanndís Friðriksdóttir og Elín Metta Jensen.

Breiðablik er núna með sex stig eftir tvo leiki, eins og Fylkir. Valur er með þrjú stig.