mið 25.mar 2020
Borgarstjórinn í Bergamó: 40 þúsund smituðust á San Siro
Ítalska borgin Bergamó er sú sem hefur komið verst út úr kórónuveirufaraldrinum enn sem komið er í Evrópu.

Um 500 manns hafa látist í borginni og er ástandið svo slæmt að ekki finnst lengur pláss fyrir lík hinna látnu. Herinn hefur þurft að færa rúmlega 100 lík til næstu borga vegna plássleysis.

Borgarstjóri Bergamó heitir Giorgio Gori og er hann á því máli að Meistaradeildarviðureign Atalanta gegn Valencia á San Siro sé meginástæðan fyrir mikilli dreifingu veirunnar í borginni.

„Við vissum ekki hvað var í gangi þegar leikurinn fór fram 19. febrúar. Veiran greindist fyrst á Ítalíu 23. febrúar, sem þýðir að hún var komin til landsins fyrir leikinn," sagði Gori.

„Þeir 40 þúsund áhorfendur sem fóru á San Siro hafa smitast, enginn vissi af veirunni og því var enginn að passa sig á henni. Fólk faðmaðist og kysstist."

Atalanta vann leikinn 4-1 og tryggði sig í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn.