sun 27.sep 2020
Verður Matti Villa 'nían' í liði FH?
Matthías fagnar marki með FH fyrir nokkrum árum síðan.
Það bárust stórar fréttir síðastliðinn föstudag; FH staðfesti kaup á Matthíasi Vilhjálmssyni, fyrrum fyrirliða liðsins.

Matthías gerir þriggja ára samning við FH en hann gengur formlega til liðs við félagið um áramótin. Hann kemur frá norska úrvalsdeildarfélaginu Vålerenga.

Á ferli sínum hjá FH, áður en hann fór í atvinnumennsku, skoraði Matthías 46 mörk í 151 leik en hann varð fjórum sinnum Íslandsmeistari og tvisvar sinnum bikarmeistari.

Matthías hefur leikið í Noregi síðan árið 2012, með Start, Rosenborg og Vålerenga, og orðið fjórum sinnum meistari þar í landi.

„Það þarf ekki að útskýra fyrir einum né neinum sem fylgjast með íslenskum fótbolta og fótboltamönnum hvað Matthías er að fara að koma með í þetta FH lið," sagði Elvar Geir Magnússon í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær.

„Hann verður 34 ára á næsta ári. Hann er í svakalegu standi, alvöru atvinnumaður og einhver sá heilsteyptasti sem við höfum séð á þeim áratug sem við höfum verið að fjalla um boltann," sagði Tómas Þór Þórðarson. „Hann verður samt 34 ára og hann er að koma, að mér skilst, sem nía."

„Hann fer ekki í holuna, hann er að fara í strikerinn. Hann skorar mörk," sagði Tómas.

Matthías er mjög vinsæll eftir flottan feril í Noregi en hann verður leikmaður FH um áramótin. Hér að neðan má hlusta á útvarpsþáttinn í heild sinni.