lau 26.sep 2020
Pepsi Max-kvenna: Mist með fjögur í sigri Vals á Fylki
Mist Edvardsdóttir gerði fernu fyrir Val.
Fylkir 0 - 7 Valur
0-1 Mist Edvardsdóttir ('7 )
0-2 Mist Edvardsdóttir ('17 , víti)
0-3 Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir ('38 )
0-4 Mist Edvardsdóttir ('42 )
0-5 Mist Edvardsdóttir ('44 )
0-6 Elín Metta Jensen ('48 )
0-7 Bergdís Fanney Einarsdóttir ('70 )
Lestu nánar um leikinn

Valur valtaði yfir Fylki í síðasta leik dagsins í Pepsi Max-deild kvenna. Leikið var í Árbænum.

Ríkjandi Íslandsmeistarar Vals tóku forystuna á sjöundu mínútu og var það Mist Edvardsdóttir sem skoraði. Hún skoraði annað mark leiksins á 17. mínútu úr vítaspyrnu.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir kom Val í 3-0, en Mist fullkomnaði þrennu sína og gerði fjórða mark sitt í leiknum fyrir leikhlé. „ÞVÍLÍKUR LEIKUR HJÁ MIST MAÐUR MINN LIFANDI. Dóra María tekur spyrnuna og boltinn berst beint á kollinn á Mist sem skallar hann í stöngina og þaðan inn," skrifaði Helga Katrín Jónsdóttir í beinni textalýsingu þegar Mist skoraði fjórða mark sitt.

Elín Metta Jensen og Bergdís Fanney Einarsdóttir bættu við sjötta og sjöunda markinu áður en flautað var til leiksloka. Lokatölur 7-0 fyrir Val sem er á toppi deildarinnar með fjórum stigum meira en Breiðablik, en Blikar eiga tvo leiki til góða.

Önnur úrslit:
Pepsi Max-deild kvenna: Þór/KA vann fallbaráttuslaginn
Pepsi Max-deild kvenna: Mary og Stephanie afgreiddu Selfoss