mán 28.sep 2020
Kolbeinn kom inn á í sigri - Elías spilaði í tapi
Nokkrir Íslendingar eru í eldlínunni í kvöld með liðum sínum í Evrópu.

Elías Már Ómarsson spilaði allan leikinn fyrir Excelsior sem tapaði gegn Jong Ajax í hollensku B-deildinni í kvöld. Leiknum lauk með 3-0 sigri Jong Ajax og er Excelsior í tíunda sæti deildarinnar eftir fimm umferðir.

Í Danmörku var Frederik Schram á bekknum hjá Lyngby sem steinlá á útivelli gegn Nordsjælland, 4-1. Lyngby er með eitt stig eftir þrjá leiki.

Kolbeinn Sigþórsson kom þá inn af bekknum hjá AIK og spilaði 20 mínútur í dramatískum sigri á Mjallby. Nabil Bahoui gerði sigurmarkið fyrir heimamenn í AIK á þriðju mínútu uppbótartímans.

AIK er í mikilli fallbaráttu en liðið er með 24 stig í tólfta sæti deildarinnar.