fös 07.maí 2021
Lengjudeildin: Pétur skoraði þrennu í sigri á Þór - Grindavík vann ÍBV
Pétur Theodór skoraði þrennu og hér lyftir hann þremur fingrum til merkis um það.
Grótta vann magnaðan 4-3 sigur á Þór í Lengjudeild karla í kvöld en á sama tíma vann Grindavík lið ÍBV, 3-1. Pétur Theodór Árnason skoraði þrennu fyrir Gróttu.

Fyrsta umferðin fer hressandi af stað í Lengjudeildinni en Grótta, sem féll úr Pepsi Max-deildinni eftir síðasta tímabil, byrjar á sigri.

Þórsarar spiluðu á Seltjarnanesinu í kvöld og komust þeir yfir með marki frá Liban Abdulahi en hann skaut í stöng og inn á 15. mínútu áður en Pétur Theodór jafnaði úr víti á 33. mínútu.

Staðan 1-1 í hálfleik. Liðin buðu upp á markaveislu í þeim síðari en aftur komust Þórsarar yfir. Ólafur Aron Pétursson skoraði með viðstöðulausu skoti á 57. mínútu en aftur svaraði Pétur með marki fyrir Gróttu, aðeins fimm mínútum síðar.

Hann fullkomnaði svo þrennu sína á 66. mínútu og Sölvi Björnsson kom Gróttumönnum í þægilega stöðu sex mínútum síðar með marki úr víti. Ólafur Aron minnkaði muninn með Þór með marki úr vítaspyrnu þrettán mínútum fyrir leikslok.

Petar Planic var rekinn af velli hjá Þórsurum á 87. mínútu eftir að hann braut á Pétri sem var að sleppa í gegn. Góður sigur Gróttu í dag og liðið með þrjú stig eftir fyrstu umferðina.

Grindavík vann ÍBV, 3-1. Sigurður Bjartur Hallsson kom heimamönnum yfir á 7. mínútu með laglegri bakfallsspyrnu áður en Sigurjón Rúnarsson tvöfaldaði forystuna á 27. mínútu.

Viktor Guðberg Hauksson gerði svo þriðja mark Grindvíkinga með skalla af stutt færi eftir aukaspyrnu. Eyjamenn náðu að minnka muninn fimmtán mínútum fyrir leikslok með marki frá Sito. Felix Þór Friðriksson átti góða fyrirgjöf fyrir markið og kláraði Sito nokkuð örugglega.

Lokatölur 3-1 fyrir Grindavík. Heimamenn fagna þessum úrslitum og fyllilega verðskuldaður sigur.

Úrslit og markaskorarar:

Grótta 4 - 3 Þór
0-1 Liban Abdulahi ('15 )
1-1 Pétur Theódór Árnason ('33 , víti)
1-2 Ólafur Aron Pétursson ('57 )
2-2 Pétur Theódór Árnason ('62 )
3-2 Pétur Theódór Árnason ('66 )
4-2 Sölvi Björnsson ('72 , víti)
4-3 Ólafur Aron Pétursson ('78 , víti)
Rautt spjald: Petar Planic, Þór ('87)
Lestu um leikinn hér


Grindavík 3 - 1 ÍBV
1-0 Sigurður Bjartur Hallsson ('7 )
2-0 Sigurjón Rúnarsson ('27 )
3-0 Viktor Guðberg Hauksson ('56 )
3-1 Jose Enrique Seoane Vergara ('76 )
Lestu um leikinn hér