mán 21.jún 2021
Pepsi Max-kvenna: Breiðablik með stórsigur í stórleiknum
Breiðablik vann stórkostlegan sigur í kvöld.
Fylkir lagði Þrótt að velli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Breiðablik hafði betur gegn Selfoss í toppslagnum í Pepsi Max-deild kvenna í kvöld.

Íslandsmeistararnir í Breiðablik eru komnar á toppinn eftir þennan stórkostlega sigur.

Það var mikil reykistefna fyrir leik og var hann færður af JÁVERK-vellinum, grasvellinum á Selfossi, yfir á gervigrasið út af veðri. Bæði lið fengu færi á að fresta leiknum, en kusu að gera það ekki.

Breiðablik mætti af miklum krafti í leikinn. Þær komust yfir eftir tíu mínútna leik. „Blikar ná forystunni í leiknum og það er ekkert smá mark sem að Agla skorar. Þóra leikur sér að eldinum og ætlar að finna samherja rétt fyrir framan vítateig Selfyssinga, Agla er rétt kona á réttum stað, nær til boltans og lætur vaða af 25 metrunum, stöngin inn! Haland fraus í markinu," skrifaði Arnar Helgi Magnússon þegar Agla María Albertsdóttir kom Blikum yfir.

Taylor Marie Ziemer bætti við öðru marki þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Blikar bættu svo við tveimur mörkum seint í leiknum og lokatölur 4-0.

Frábær sigur hjá Blikum sem eru núna á toppnum, fyrir ofan Val og Selfoss.

Fylkir spyrnti sér upp
Fylkir hefur verið í vandræðum í sumar en þær áttu flottan leik í kvöld gegn Þrótti.

Leikurinn byrjaði reynar ekki vel fyrir Fylki því þær lentu 1-0 undir eftir aðeins fimm mínútna leik. Shaelan Grace Murison Brown skoraði og kom Þrótti yfir.

Fylkir svaraði því vel og þær voru komnar í 2-1 fyrir leikhlé. Þær appelsínugulu úr Árbænum létu ekki staðar numið. Bryndís Arna Níelsdóttir gerði sitt annað mark á 55. mínútu og sjálfsmark á 67. mínútu varð til þess að staðan var orðin 4-1 á 67. mínútu.

Þróttur klóraði í bakkann en það var of lítið, of seint. Lokatölur 4-2 og Fylkir er komið upp í áttunda sæti með átta stig. Þróttur er í fimmta sæti en það munar aðeins þremur stigum á liðinu í fjórða sæti og níunda sæti.

Þróttur R. 2 - 4 Fylkir
1-0 Shaelan Grace Murison Brown ('5 )
1-1 Bryndís Arna Níelsdóttir ('13 )
1-2 Þórdís Elva Ágústsdóttir ('43 )
1-3 Bryndís Arna Níelsdóttir ('55 )
1-4 Jelena Tinna Kujundzic ('67 , sjálfsmark)
2-4 Ólöf Sigríður Kristinsdóttir ('96 )
Lestu nánar um leikinn

Selfoss 0 - 4 Breiðablik
0-1 Agla María Albertsdóttir ('10 )
0-2 Taylor Marie Ziemer ('40 )
0-3 Karitas Tómasdóttir ('87 )
0-4 Birta Georgsdóttir ('92 )
Lestu nánar um leikinn