lau 31.júl 2021
Ólympíuleikarnir: Spánverjar skoruðu þrjú í framlengingu
Rafa Mir skoraði þrennu og sendi Fílabeinsstrendinga heim
Spánn 5 - 2 Fílabeinsströndin
0-1 Eric Bailly ('10 )
1-1 Dani Olmo ('30 )
1-2 Max-Alain Gradel ('90 )
2-2 Rafa Mir ('90 )
3-2 Mikel Oyarzabal ('98 )
4-2 Rafa Mir ('117 )
5-2 Rafa Mir ('120 )


Spánverjar eru komnir í undanúrslit á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir 5-2 glæsilegan sigur á Fílabeinsströndinni. Spænska liðið skoraði þrjú mörk í framlengingu.

Eric Bailly, varnarmaður Manchester United, kom Fílabeinsströndinni yfir á 10. mínútu eftir hornspyrnu. Dani Olmo jafnaði með skoti af stuttu færi tuttugu mínútum síðar.

Það átti sér stað mikil dramatík undir lok síðari hálfleiks. Max-Alain Gradel skoraði þegar ein mínútu var komin í uppbótartíma. Hann þrumaði beint á markið og óvíst hvað Unai Simon var að spá á línunni.

Rafa Mir jafnaði metin tveimur mínútum síðar og þurfti því að framlengja leikinn. Þar kláruðu Spánverjar dæmið með þremur mörkum. Mikel Oyarzabal skoraði úr víti á 98. mínútu áður en Rafa Mir fullkomnaði þrennu sína með tveimur mörkum á síðustu þremur mínútunum.

Spánn mætir Japan eða Nýja-Sjálandi í undanúrslitum.