lau 27.nóv 2021
Stjarnan með tilboð í Jóhann Árna
Stjarnan hefur gert tilboð í Jóhann Árna Gunnarsson efnilegasta leikmann Lengjudeildarinnar og einn besta leikmann Fjölnis en þetta herma heimildir Fótbolta.net.

Frá þessu var greint í hlaðvarpsþættinum Ungstirnin sem kom út í morgun.

Jóhann Árni er um þessar mundir á reynslu hjá danska félaginu Viborg. Hann er tvítugur miðjumaður sem á að baki nítján leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Í þættinum var sagt frá því að Jóhanni langaði að fara í KR en KR-ingar séu ekki tilbúnir að borga það sem Stjarnan er tilbúin að borga.

Jóhann er uppalinn í Fjölni og er samningsbundinn félaginu út tímabilið 2022.

Fyrir síðasta tímabil var hann orðaður við bæði ÍA og Fylki.