þri 18.jan 2022
Vonast til að fá Jón Daða til félagsins í vikunni
Jón Daði Böðvarsson er líklega á leið á láni til Bolton frá Millwall en greint var frá áhuga Bolton í síðustu viku. Jón Daði hefur verið í frystikistunni hjá Millwall og ekki spilað leik fyrir félagið síðan í ágúst.

Jón Daði er 29 ára sóknarmaður og verður samningslaus í sumar.

Sjá einnig:
Segir markið gefa sér mikið - „Gengur ekki lengur"

Gary Rowett, stjóri Millwall, var spurður eftir leik Millwall gegn Nottingham Forest um helgina hvort einhver þróun væri á málum Jóns Daða.

„Nei, í rauninni ekki. Jón er búinn að vera með íslenska landsliðinu þar sem hann skoraði og stóð sig nokkuð vel," sagði Rowett og gaf í skyn að Bolton hefði ekki boðið nægilega mikið í Jón Daða til að Millwall væri til í að hleypa honum í burtu.

Miðillinn London News Online greinir frá því í dag að jákvæð framvinda hafi orðið í viðræðum milli félaganna.

Stjóri Bolton, Ian Evatt, vill fá landsliðsmanninn og vonast til að fá hann í vikunni. Evatt segir að Bolton sé í baráttunni við annað félag í C-deildinni um krafta Jóns Daða.