mán 24.jan 2022
Fyrsta mark Sverris í 10 mánuði - Mörkin komu seint á Ítalíu
Sverri Ingi skoraði.
Þórir Jóhann og Hjörtur í toppbaráttu á Ítalíu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Kristian Nökkvi.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét

Nokkur Íslendingalið áttu leiki í gær og voru flestir Íslendingarnir að spila með sínum liðum. Þegar hefur verið fjallað um að Dagný Brynjarsdóttir og María Catharina Ólafsd. Gros hafi verið á skotskónum.

Sjá einnig:
Dagný skoraði - Fyrsti leikur hjá Önnu Björk og Sveindísi
María Catharina heldur áfram að skora fyrir Celtic

Fyrsta markið frá því fyrir meiðsli
Sömu sögu má segja frá Sverri Inga Ingasyni en hann skoraði annað mark PAOK í 0-4 útisigri á Volos í gær. Sverrir glímdi við meiðsli stóran hluta síðasta árs en sneri til baka undir lok árs og er orðinn fastamaður í gríska liðinu.

Sverrir var að skora sitt fyrsta mark frá því í mars, hann skoraði eftir stoðsendingu Jasmin Kurtic. PAOK er í 2. sæti grísku Ofurdeildarinnar, níu stigum á eftir Olympiakos.

Olympiakos lagði Giannina 2-0 á heimavelli. Ögmundur Kristinsson var á varamannabekknum en hann spilaði í leiknum á undan, í 8-liða úrslitum bikarsins.

Einn sigur og tvö jafntefli á Ítalíu
Þrír Íslendingar voru í eldlínunni á Ítalíu i gær. Lecce vann 2-1 heimasigur á Cremonese og lék Þórir Jóhann Helgason síðustu 25 mínútur leiksins. Þórir kom inn í stöðunni 1-1 og sigurmark Lecce kom á fyrstu mínútu uppbótartíma. Þá varð leikmaður gestanna fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Lecce er í 3. sæti deidlarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Pisa en liðið á leik til góða.

Í ítölsku C-deildinni áttum við Íslendingar tvo fulltrúa. Emil Hallfreðsson lék allan leikinn þegar Virtus Verona kreisti út jafntefli gegn Legnago Salus á útivelli. Jöfnunarmark Virtus kom á fjórðu mínútu uppbótartíma. Liðið er í 9. sæti A-riðils.

Óttar Magnús Karlsson lék þá síðustu mínúturnar í 2-2 jafntefli Siena og Imolese. Óttar kom inn á í stöðunni 1-2 fyrir gestina í Imolese en liðsfélagi Óttars náði að jafna leikinn á annarri mínútu uppbótartíma. Siena er í 13. sæti B-riðils.

Rúnar og Hólmbert ekki með
Í þýsku B-deildinni var Hólmbert Aron Friðjónsson ekki í leikmannahópi Holstein Kiel. Hann er mögulega á leið á láni til Osnabrück í C-deildinni. Holstein vann 1-2 útsigur og er í 11. sæti deildarinnar.

Í Rúmeníu gerðu toppliðin FCSB og Cluj 3-3 jafntefli. Heimamenn í FCSB jöfnuðu leikinn með marki í uppbótartíma. Rúnar Már Sigurjónsson var ekki í leikmannahópi Cluj sem er emeð tíu stiga forskot eftir 22 umferðir.

Loks lék Kristian Nökkvi Hlynsson allan leikinn með varaliði Ajax í næstefstu deild í Hollandi. Jong Ajax tapaði á útivelli gegn Telstar. Liðið er í 4. sæti, níu stigum frá toppnum. Kristian hefur fengið að spreyta sig með aðalliði Ajax í hollensku bikarkeppninni og hefur skorað í báðum leikjunum sem hann hefur tekið þátt í.