þri 25.jan 2022
Daníel Leó á leið í læknisskoðun hjá Slask Wroclaw
Daníel Leó Grétarsson er á leið frá Blackpool
Íslenski miðvörðurinn Daníel Leó Grétarsson er að ganga í raðir pólska úrvalsdeildarfélagsins Slask Wroclaw og mun gangast undir læknisskoðun á næstu dögum en þetta herma heimildir Fótbolta.net.

Daníel Leó, sem er 26 ára gamall, hefur lítið fengið að spreyta sig með enska B-deildarliðinu Blackpool á þessari leiktíð.

Hann spilaði leik í enska deildabikarnum í lok ágúst en þurfti að bíða í tæpa fjóra mánuði eftir næsta tækifæri. Daníel var í byrjunarliði Blackpool í tapi gegn Middlesbrough og Huddersfield en fékk síðan Covid-19 og hefur ekki verið í hóp í síðustu leikjum.

Daníel hefur síðustu daga verið í viðræðum við pólska félagið Slask Wroclaw eins og Fótbolti.net greindi frá en hann mun gangast undir læknisskoðun á næstu dögum áður en hann verður kynntur sem nýr leikmaður félagsins.

Slask Wroclaw er í 10. sæti pólsku úrvalsdeildarinnar en deildin hefur verið í vetrarfríi síðasta mánuðinn og fer aftur af stað þann 5. febrúar.