mán 16.maí 2022
[email protected]
Emil fór aftur í hjartastopp
 |
Emil Pálsson. |
Emil Pálsson lenti í hjartastoppi í annað sinn er hann var á fótboltaæfingu í síðustu viku. Frá þessu greinir hann í samtali við TV2 í Noregi.
Fyrir hálfu ári síðan lenti Emil í hjartastoppi er hann var að spila leik með Sarpsborg í Noregi. Hann var þá endurlífgaður á vellinum og fluttur á sjúkrahús með þyrluflugi. Hann hefur verið að æfa hér á Íslandi síðustu vikur og fékk svo grænt ljós frá læknum um að halda áfram með sinn feril út í Noregi. Þetta eru því afskaplega leiðinleg tíðindi þó það sé fyrir öllu að hann sé á lífi.
„Þetta eru slæmar fréttir. Í síðustu viku fór ég í hjartastopp á æfingu á Íslandi," segir Emil.
„Ég er mjög vonsvikinn. Ég bjóst ekki við því að þetta myndi gerast aftur. Ég var á góðum stað og tilbúinn að snúa aftur á fótboltavöllinn. Ég er auðvitað þakklátur að það fór allt vel." Hann hefur að undanförnu æft með FH en þar lék hann á árunum 2011-17.
Hann mun á næstu dögum fara í frekari rannsóknir. „Þegar þetta gerist tvisvar, þá er orðið mjög erfitt að byrja aftur í fótbolta. Ég vil samt ekki segja að ég sé 100 prósent hættur," segir Emil sem er 28 ára gamall.
|