fim 07.júl 2022
Maguire kveðst 'óvart' hafa líkað við færslu um Ronaldo
Harry Maguire.
Harry Maguire, fyrirliði Manchester United líkaði við færslu á Instagram í gær þar sem var fjallað um að Cristiano Ronaldo væri ósáttur í herbúðum United.

Það hefur nokkuð verið fjallað um það síðustu daga að Ronaldo vilji fara frá Man Utd til þess að spila í Meistaradeildinni.

Í þessari færslu var sagt að Ronaldo væri ósáttur við það að þurfa að taka á sig launalækkun hjá United, en sögur hafa verið um að leikmenn liðsins hafi þurft að taka á sig 25 prósent lækkun í launum eftir að hafa misst af Meistaradeildarsæti.

Maguire ‘líkaði’ við færsluna og tóku aðdáendur liðsins eftir því. Maguire er mjög óvinsæll á meðal stuðningsmanna Man Utd og það að hann sé að líka við þessa færslu er ekki að auka vinsældir hans neitt. Einhverjir hafa túlkað það þannig að hann sé á móti Ronaldo, sem er einn besti fótboltamaður sögunnar og hann vilji að almenningsálitið sé gegn Portúgalanum.

Maguire segir hins vegar að um mistök hafi verið að ræða og þetta hafi verið algörlega óvart.

Á síðustu leiktíð var mikið talað um valdabaráttu á milli Maguire og Ronaldo, en það var fjallað um það í enskum fjölmiðlum að Maguire væri ekki sérlega sáttur með það hversu mikil völd Ronaldo væri með í klefanum.