lau 16.júl 2022
Byrjunarlið FH og Víkings R: Bæði lið gera tvær breytingar - Danijel Djuric á bekknum
Danijel Dejan Djuric byrjar á bekknum hjá Víkingum

13.umferð Bestu deildar karla hefur göngu sína núna í kvöld þegar FH taka á móti Íslands og Bikarmeisturum Víkings á Kaplakrikavelli núna klukkan 18:00.

Þessi lið áttust við í opnunarleik Bestu deildarinnar þar sem gestirnir í Víking höfðu betur með tveimur mörkum gegn engu í víkinni.

Víkingar koma inn í þennan leik með á mikilli siglingu en þeir hafa unnið síðustu 5 leiki sína í röð og halda pressu á toppliði Breiðabliks en aðeins munar 6 stigum á Víkingum í 2.sæti og Blikum í því fyrsta á meðan heimamenn í FH hafa ekki fagnað sigri síðan í 6.umferð gegn ÍBV og sitja í 9.sæti deildarinnar tveim stigum frá 11.sætinu og 5 stigum frá botnsætinu.Heimamenn í FH gera tvær breytingar á sínu liði en inn í byrjunarliðið koma Davíð Snær Jóhannsson og Vuk Oskar Dimitrijevic.

Gestirnir í Víking gera tvær breytingar á sínu liði frá síðasta leik sínum gegn Malmö en inn í liðið koma Ari Sigurpálsson og Kristall Máni Ingason.