fim 28.júl 2022
Adam Örn: Reyni að hjálpa liðinu að kveikja neistann aftur
Adam Örn er kominn til Leiknis á lánssamningi.
Á gluggadeginum fékk Leiknir í Breiðholti lánaðan til sín bakvörðinn Adam Örn Arnarson frá Breiðabliki. Adam, sem er 26 ára gamall, snéri heim úr atvinnumennsku fyrir sumarið og samdi við Breiðablik, en hann hefur aðeins spilað tvo leiki í Bestu deildinni í sumar.

Í viðtali við samfélagsmiðla Leiknis kemur fram að faðir Adams býr í Breiðholtinu og þar hefur leikmaðurinn búið meðan hann er í leit að íbúð. „Eins og er þá er ég í Breiðholtinu, bara hérna í Rjúpufellinu," segir Adam.

„Ég er hægri bakvörður að upplagi en get alveg leyst eitthvað annað ef það þarf. Ég skrifaði undir hjá Breiðabliki fyrir tímabilið en kom seint inn í þetta þar og var aðeins eftirá hvað varðar form og svona. Liðið hefur verið að vinna flesta leiki og verið erfitt að brjóta sig inn í liðið. Höskuldur (Gunnlaugsson) hefur verið að standa sig vel og ég gat ekki treyst á að fá mínúturnar þar sem ég vil."

„Ég vil láta reyna það hjá Leikni, fá að spila og standa mig vel, sýna hvað ég get. Leiknismenn hafa alltaf verið þekktir fyrir góða stemningu og liðsanda. Ég ætla að reyna að hjálpa liðinu að kveikja neistann aftur."

Leiknir hefur tapað síðustu tveimur leikjum í Bestu deildinni illa og er komið niður í fallsæti. Viðtalið við Adam má sjá hér að neðan.