fös 29.júl 2022
Ronaldo var virkur á Instagram í dag

Cristiano Ronaldo hefur ekki verið mikið með liðsfélögunum í Manchester United á undirbúningstímabilinu og var mikið í símanum í dag.Hann skoðaði Instagram og tjáði sig á minnst tveimur stöðum til að svara aðgöngum sem eru stofnaðir af aðdáendum hans.

Fyrst skrifaði hann ummæli við mynd til að gera grín að Atletico Madrid. Það var orðrómur fyrir nokkrum dögum að Diego Simeone vildi starfa með Ronaldo og tóku stuðningsmenn Atletico illa í þær fregnir, svo illa að þeir hafa mótmælt þessari hugmynd í hverjum einasta æfingaleik síðan.

Svo tjáði hann sig um nánustu framtíð þar sem mikil óvissa hefur ríkt í kringum Ronaldo á undirbúningstímabilinu. Hann skrifaði ummæli: „Kongurinn mun spila á sunnudaginn," sem þýðir að hann verður í liði Manchester United sem mætir Rayo Vallecano í æfingaleik, en missir af æfingaleiknum gegn Atletico Madrid.