lau 30.júl 2022
Spáin fyrir enska - 14. sæti - „Álíka spennandi og sandpappír"
Fagnaðarlæti í leik seint á síðustu leiktíð.
Frank Lampard, stjóri Everton.
Mynd: EPA

Richarlison var seldur til Tottenham.
Mynd: EPA

Enski landsliðsmarkvörðurinn, Jordan Pickford.
Mynd: EPA

Dominic Calvert-Lewin, maður sem þarf að skora mörk.
Mynd: Getty Images

Magnús Geir Eyjólfsson er stuðningsmaður Everton.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Rafa Benitez gerði ekki góða hluti á síðasta tímabili.
Mynd: EPA

Mason Holgate og Tom Davies. Leikmenn sem eru kannski ekki alveg nægilega góðir fyrir ensku úrvalsdeildina.
Mynd: Getty Images

James Tarkowski er mættur.
Mynd: EPA

Hvar endar Everton á komandi tímabili?
Mynd: Getty Images

Enska úrvalsdeildin, sem er í miklu uppáhaldi hjá flestum fótboltaunnendum á Íslandi, hefst um næstu helgi. Það er tæp vika í fyrsta leik.

Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Við heyrum líka í stuðningsfólki hvers lið og tökum púlsinn fyrir tímabilið sem er framundan.

Næst í röðinni er það Everton sem er spáð 14. sæti deildarinnar af okkar fréttafólki.

Um Everton: Það hefur alltaf verið hugur í Everton að blanda sér í baráttuna í efri hlutanum en það hefur aldrei tekist. Í fyrra lenti liðið í mikilli fallbaráttu og á tímabili leit út fyrir að liðið myndi leika í Championship-deildinni á komandi keppnistímabili, en Everton náði að bjarga sér og verður áfram í deild þeirra bestu. Hvað þeir gera á þessari leiktíð, það verður fróðlegt að sjá. Hugurinn leitar alltaf upp í efri hlutann, en eru þeir nógu góðir til þess að forðast falldrauginn?

Félagið hefur tekið því nokkuð rólega á leikmannamarkaðnum til þessa og það hlýtur að vera meira á leiðinni.

Komnir:
Dwight McNeil frá Burnley - 20 milljónir punda
Ruben Vinagre frá Sporting - á láni
James Tarkowski frá Burnley - frítt

Farnir:
Richarlison til Tottenham - 50 milljónir punda
Ellis Simms til Sunderland - á láni
Jarrad Branthwaite til PSV Eindhoven - á láni
João Virgínia til Cambuur - á láni
Cenk Tosun til Besiktas - frítt
Jonjoe Kenny til Hertha Berlín - frítt
Fabian Delph fékk ekki nýjan samning
Gylfi Þór Sigurðsson fékk ekki nýjan samning

Lykilmenn: Jordan Pickford, Ben Godfrey og Dominic Calvert-Lewin
Þrír leikmenn sem eru að berjast um það að komast með Englandi á heimsmeistaramótið í vetur. Þeir þurfa allir að spila betur en þeir gerðu á síðustu leiktíð, það er klárt mál. Og það geta þeir allir gert. Það verður fróðlegt að sjá hvernig heimamaðurinn Anthony Gordon kemur inn í þetta tímabil eftir að spilað vel undir lok síðustu leiktíðar.Eitthvað sem hefur fylgt mér frá því ég man eftir mér
Magnús Geir Eyjólfsson, fréttamaður á RÚV, er stuðningsmaður Everton. Við fengum hann til að svara nokkrum spurningum um liðið og tímabilið sem er framundan.

Ég byrjaði að halda með Everton af því að... Ég er ekki viss hvernig Everton kom inn í líf mitt. Þetta er eitthvað sem hefur fylgt mér frá því ég man eftir mér. Annað hvort valdi ég Everton til að bögga bróður minn sem heldur með Liverpool eða ég er fæddur undir óheillastjörnu.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil og hvernig líst þér á tímabilið sem framundan er? Síðasta tímabil var bæði það versta og besta fyrir Everton fólk. Eftir að hafa svifið á bleiku skýi Ancelotti og James Rodriguez í tvö ár var hinn óhæfi og árulausi Rafa Benitez á einhvern glórulausan hátt dreginn á flot. Á enn glórulausari hátt fékk hann að hanga í starfi vel fram yfir áramót, eftir að hafa mölvað félagið að innan. Hann skildi liðið eftir í fallbaráttu og búinn að sparka James, Brands, Grétari Rafni og fleiri góðum mönnum í burtu. Í staðinn færði hann okkur 30 ára gamlan Andros Townsend. Ég ætla að vona að ég þurfi aldrei aftur að líta augum á Benitez og ég óska engum stuðningsmanni þess að hann fái annað starf.

Frank Lampard tók við og virtist ekki ætla að geta blásið lífi í það rotnandi lík sem árulausi Spánverjinn skildi eftir. Eftir niðurlægjandi tap gegn Burnley virtist fátt geta bjargað liðinu og þá var maður farinn að sætta sig við fallið. En þá tóku stuðningsmenn yfir klúbbinn. Þeir sköpuðu tyrkneska stemningu í hverjum leik sem skilaði sigrum gegn Chelsea, Leicester og Manchester United. Klímaxinu var svo náð í epískum 3-2 endurkomusigri gegn Crystal Palace þar sem Goodison gekk af göflunum. Líklega besta stund stuðningsmanna í mörg ár en sýnir um leið hversu mikið þrot er búið að vera í gangi

Það bjargaði svo tímabilinu endanlega að Liverpool varð ekki meistari.

Hefur þú farið út til Englands að sjá þitt lið spila? Ef svo er, hvernig var það? Fyrsti leikurinn var reyndar á Laugardalsvelli þar sem Everton vann KR í því sem þá hét Evrópukeppni bikarhafa. Það sem stendur upp úr þeim leik er þegar Móði Egils rotaði Daniel Amokachi. Sem sýnir hversu mikið unit Móði var því Amokachi var naut af manni.

Annars sá ég tilþrifa lítinn 1-0 sigur á Derby á Goodison fyrir sirka 15 árum. Man ekki einu sinni hver skoraði winnerinn en man þó eftir að hafa fengið ógeðslegustu kjötböku sem ég hef á ævinni séð og bragðað. Svo tók ég Arsenal aðdáandann föður minn á Emirates þar sem ég gat lítið haft mig í frammi þar sem við sátum Arsenal megin í stúkunni. 3-2 tap ef ég man rétt og ég fékk alveg að heyra það frá fólki í kringum mig. Ég hlakka mikið til að fara á nýja völlinn. Hann verður stórglæsilegur og Everton - Rotherham 'under the lights' verður eitthvað annað.

Uppáhalds leikmaðurinn í liðinu í dag? Richarlison var náttúrlega í guðatölu eftir hans framgöngu í vor. En þrotafélagið sem Everton er, það þurfti náttúrlega að selja hann. Sá eini þarna sem kemst nálægt því að vera 'club legend' er Jordan Pickford. 'Undisputed England no. 1' og dásamlega mikið 'trash'. Svo er ég með 'soft spot' fyrir Tom Davies. Ekkert sérlega góður í fótbolta en er 'scouser' með vafasaman fatasmekk.

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við? Af mörguðum löstuðum held ég að Michael Keane og Mason Holgate verði að fara. Í besta falli Championship miðverðir. Svo er þarna framherji sem heitir Solomon Rondon og honum er fyrirmunað að skora mörk. Annars var mjög frelsandi að sjá Fabien Delph og Cenk Tosun renna út á samningum í vor.

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur? Anthony Gordon, ungur og uppalinn kantmaður sem án efa á eftir að enda í einu af stóru liðunum. Ef hann hefði útlitið hans Beckham væri hann vafalaust orðinn stórstjarna. En hann hefur það því miður ekki.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja... Virgil Van Dijk. Óþolandi með öllu en myndi veikja Liverpool liðið til muna. Og kann að spila vörn ólíkt flestum þeim sem spila í bláu.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann? Ég er enn að melta Frank Lampard. Fyrir það fyrsta er hann ekki Rafa Benitez sem gerir hann strax eftirsóknarverðan. Fyrir utan að hann skítlúkkar. Ég held hins vegar hann sé ekki sá kraftaverkamaður sem liðið þarf. Honum er náttúrlega vorkunn því félagið er verr rekið en Baugur Group var á sínum tíma og það er komið að skuldadögum eftir áratugs vanhæfni og fúsk núverandi eiganda. Vafalaust gæti hann gert ágæta hluti við eðlilegar kringumstæður.

Hvað þarf Everton að gera til þess að rífa sig upp úr neðri hlutanum eins og raunin hefur verið síðustu árin? Kalt mat er að liðinu er ekki viðbjargandi fyrir þetta tímabil. Liðið þarf að komast sem fyrst í hendur nýrra eigenda sem ekki eru morðingjar og mannréttindabrjótar. Og hafa vit á fótbolta. Svo þarf langtímaplan og stjórnendur og þjálfara sem fylgja því. Gangi það eftir má horfa fram á að liðið verði komið í efri hlutann eftir 3-4 ár.

Í hvaða sæti mun Everton enda á tímabilinu? Félagaskiptaglugginn hefur verið álíka mikil vonbrigði og frammistaða FH og Vals í sumar, samanlagt. Þeir leikmenn sem hafa komið inn - Tarkowski, Vinagre og McNeil - eru álíka spennandi og sandpappír þótt Tarkowski líti út fyrir að vera 'proper shithouse'. Sem við elskum. Það hefði hins vegar þurft að minnsta kosti fimm alvöru menn til að plástra yfir blæðandi svöðusárið sem í ofanálag er komið með grasserandi sýkingu. Fulham og Bournemouth gera náttúrlega það sem þau gera alltaf - falla - þannig að það er bara spurning hvort það verðum við eða Forest sem fylgja þeim niður. Þannig að spáin er 17.-18. sæti.
Hér fyrir neðan má svo sjá hvernig spá fréttafólks Fótbolta.net lítur út.

Þau sem spáðu: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Aksentije Milisic, Arnar Laufdal Arnarsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Jóhann Þór Hólmgrímsson, Ívan Guðjón Baldursson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
.

Spáin:
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7.
8.
9.
10.
11.
12.
13.
14. Everton, 61 stig
15. Southampton, 55 stig
16. Leeds, 53 stig
17. Fulham, 43 stig
18. Brentford, 42 stig
19. Nottingham Forest, 35 stig
20. Bournemouth, 11 stig