þri 02.ágú 2022
Depay gæti rift samningi sínum við Barcelona
Memphis Depay gæti verið á förum frá Barcelona
Lögfræðingar hollenska sóknarmannsins Memphis Depay vinna nú að því að rifta samningi hans við spænska félagið Barcelona en það er Fabrizio Romano sem greinir frá þessu á Twitter.

Depay kom til Barcelona á frjálsri sölu frá franska félaginu Lyon á síðasta ári.

Hann var markahæsti leikmaður liðsins í spænsku deildinni og gerði 12 mörk.

Börsungar keyptu Robert Lewandowski frá Bayern München á dögunum og mun því Depay vera í aukahlutverki á komandi leiktíð, fyrir svo utan það að Barcelona þarf að losa sig við leikmenn til að geta skráð inn nýju leikmennina vegna launaþaks í spænsku deildinni.

Depay er opinn fyrir því að fara frá félaginu en er líka til í að vera áfram. Hann mun aðeins skoða tilboð frá toppliðum.

Lögfræðingar leikmannsins vinna nú hörðum höndum að því að fá samningi hans við Barcelona rift en hann skrifaði undir tveggja ára samning á síðasta ári og á því einungis ár eftir.