mið 03.ágú 2022
Kasper Schmeichel og Mattia Viti til Nice (Staðfest)

Danski landsliðsmarkvörðurinn Kasper Schmeichel er búinn að skrifa undir þriggja ára samning við franska félagið Nice og er hann fjórði leikmaðurinn sem kemur í byrjun mánaðar.Kaupverðið á Schmeichel er óuppgefið en hann hefur aðeins kostað nokkrar milljónir punda þar sem þessi 35 ára markvörður, 36 í nóvember, var meðal launahæstu leikmanna Leicester og átti eitt ár eftir af samningnum.

Leicester því í leit að nýjum markverði eftir að Schmeichel lék 479 leiki á ellefu árum.

Nice var einnig að krækja í ítalska varnarmanninn Mattia Viti fyrir 15 milljónir evra. Viti er U21 landsliðsmaður og gerði góða hluti með Empoli á síðustu leiktíð.

Þessir tveir leikmenn bætast við eftir að velski miðjumaðurinn Aaron Ramsey og franski varnarmaðurinn Alexis Beka Beka voru staðfestir um mánaðamótin.

Beka Beka, sem fór með franska U23 liðinu á Ólympíuleikana í fyrra, kostaði 14 milljónir evra á meðan Ramsey kom á frjálsri sölu frá Juventus.