mán 08.ágú 2022
Rabiot kemur í pakkadíl - Móðir hans sögð mjög erfið í samskiptum
Adrien Rabiot, miðjumaður Juventus.
Man Utd tapaði 1-2 fyrir Brighton í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Mynd: EPA

Manchester United er búið að komast að samkomulagi við Juventus um kaupverð á miðjumanninum Adrien Rabiot.

Þetta herma heimildir staðarmiðilsins Manchester Evening News.

Manchester United fór af stað í ensku úrvalsdeildinni um helgina með því að tapa fyrir Brighton. Félagið er í leit að liðsstyrk og Erik ten Hag vill efla miðsvæðið.

United hefur reynt í allt sumar að landa Frenkie de Jong frá Barcelona, en það gengur erfiðlega að ganga frá því og félagið er því farið að skoða aðra leikmenn.

Það er ekki útilokað að De Jong muni koma, en félagið er byrjað að skoða aðra leikmenn þar sem það styttist í að félagaskiptaglugginn loki.

Rabiot virðist ofarlega á óskalistanum því félagið er búið ná saman við Juventus um kaupverð.

Það er þó ein hindrun eftir, móðir leikmannsins - Veronique. Hún er sögð afar erfið í samskiptum og er óhrædd við að láta skoðanir sínar flakka, sama hversu umdeildar þær eru. Hún var einu sinni ósátt við Laurent Blanc, sem þjálfaði Rabiot hjá Paris Saint-Germain, og lét hann heyra það í bílastæðahúsi.

Veronique starfar sem umboðsmaður Rabiot og félagið á enn eftir að ná samkomulagi við hana um kaup og kjör leikmannsins. Franski landsliðsmaðurinn er einn launahæsti leikmaður Juventus með 7 milljónir evra í árslaun. Hann kom til Juve frá PSG 2019.

Í grein Manchester Evening News er það sagt að Nasser Al-Khelaifi, stjórnarformaður PSG, hafi verið að losna við leikmanninn í ljósi þess að hann þyrfti ekki að eiga fleiri samræður við móður hans.

United hefur lengi fylgst með Rabiot - alveg frá því Louis van Gaal var stjóri liðsins - en það er spurning hvort það sé rétt að taka hann og allan þann pakka sem kemur með honum núna. Eykur það ekki bara vandræði félagsins og þá slæmu áru sem er búin að myndast?

Rabiot er 27 ára og hefur spilað 129 leiki fyrir Juventus og skorað sex mörk.