mið 10.ágú 2022
Werner kynntur hjá RB Leipzig: Félagið hefur þróast og ég líka
Timo Werner.
RB Leipzig hefur endurheimt þýska sóknarmanninn Timo Werner og hann gert tveggja ára samning við félagið. Tvö ár eru síðan Chelsea nýtti sér 45 milljóna punda riftunarákvæði í samningi hans og fékk hann til sín.

Werner er nú keyptur til baka á um 25 milljónir punda.

„Ég er gríðarlega ánægður með að vera kominn aftur til RB Leipzig. Tími minn hér 2016-2020 var frábær. Við náðum mögnuðum árangri sem nýliðar í deildinni," segir Werner sem raðaði þá inn mörkunum fyrir liðið.

„Nú tilheyrir það fortíðinni og ég horfi til framtíðar. RB Leipzig hefur þróast yfir síðustu tvö ár, rétt eins og ég hef gert."

Werner er 26 ára og skorað 23 mörk í 89 leikjum fyrir Chelsea í öllum keppnum. Hann vann Meistaradeildina með liðinu 2021.

Hann skoraði 95 mörk í 159 leikjum í öllum keppnum fyrir Leipzig á sínum tíma en náði ekki eins góðri tölfræði í enska boltanum.