mið 10.ágú 2022
Engin svör fást eftir fimm leikja bannið - Arnar tjáir sig ekki í dag
Arnar Grétarsson, þjálfari KA.
Í gær var Arnar Grétarsson dæmdur í fimm leikja bann, hann fær tvo leiki í bann þar sem hann fékk sína aðra brottvísun í sumar gegn KR fyrir rúmlega viku síðan en þrjá leiki aukalega fyrir framkomu sína í kjölfar rauða spjaldsins.

Engin opinber útskýring er gefin á þessu langa banni á vefsíðu KSÍ og ekki er mögulegt að fá svör frá sambandinu sjálfu.

Fótbolti.net hefur reynt að hafa samband við Arnar sjálfan sem og við Sævar Pétursson sem er framkvæmdastjóri KA. Arnar segist ekki ætla að tjá sig í dag um málið fyrr en í fyrsta lagi á morgun og Sævar hefur ekki svarað símtölum.

Fótbolti.net hefur einnig reynt að fá svör frá hinni hlið málsins en án árangurs. „Við höfum ekki lagt það í vana okkur að tjá okkur um svona mál og ég held að við höldum því áfram," sagði Halldór Breiðfjörð Jóhannsson sem er formaður dómaranefndar KSÍ.

Sveinn Arnarsson, fjórði dómari leiksins, sagði við Fréttablaðið að hann ætlaði ekki að tjá sig en þyngingin á refsingu Arnars er komin til vegna framkomu í hans garð.

Eina sem er ljóst að bannið er vegna brottvísunarinnar og atvika bæði eftir brottvísun sem og eftir leik.

Arnar hefur þegar tekið út einn af leikjunum fimm og á því fjóra leiki eftir í leikbanni. KA mætir Ægi í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld. Arnar verður á hliðarlínunni þar sem bannið á einungis við um Íslandsmót.

Sjá einnig:
Arnar sagður hafa veist að dómaranum daginn eftir leik