mið 10.ágú 2022
Eyðileggja Víkingar 100 ára afmælið? - „ Þessi leikur var til skammar"
Víkingar eru í fínum möguleika gegn Lech Poznan.
Leikmenn Lech ræddu við reiða stuðningsmenn eftir fyrri leikinn gegn Víkingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ari Sigurpálsson gerði eina markið í fyrri leiknum. Hér er hann í leiknum á heimavelli hamingjunnar í Víkinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Seinni leikur liðanna fer fram á morgun. Aldrei hefur íslenskt karlalið verið í eins góðum mögleika á að komast í riðlakeppni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Á morgun spila Víkingar á móti Lech Poznan í seinni leik liðanna í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Víkingar unnu fyrri leikinn 1-0 og má með sanni segja að það hafi aldrei verið meiri möguleika fyrir íslenskt karlalið að komast í riðlakeppni í Evrópu,

Fréttamaður Fótbolta.net heyrði Kuba Cimoszko, pólskum fjölmiðlamanni sem starfar fyrir WP SportoweFakty sem er stór fjölmiðill í Póllandi, í gær til þess að ræða um þennan stóra leik sem er framundan.

„Lech er að spila illa og þjálfarinn virðist ná illa til liðsins. Sagan gerir mann ekkert rólegri heldur fyrir hönd Lech því liðið hefur áður fallið úr leik gegn liðum sem eru lægra skrifuð. Dæmi um það eru Stjarnan frá Íslandi og Zalgiris Vilnius frá Litháen," segir Cimoszko en Lech féll eftirminnilega úr leik gegn Stjörnunni árið 2014.

Komu úrslitin í fyrri leiknum fólki í Póllandi á óvart?

„Já og nei," segir hann. „Fólk sem hefur mikinn áhuga á fótbolta tók það til greina að það yrði kannski ekki auðvelt að fara til Íslands. En þessi leikur var til skammar í rauninni, enginn bjóst við því að Lech myndi spila svona illa eins og þeir gerðu."

Stuðningsmennirnir skömmuðu leikmennina
Það vakti athygli eftir leikinn á heimavelli hamingjunnar að stuðningsmenn Lech Poznan skyldu skamma leikmenn sína. Leikmenn liðsins gengu upp að stúkunni eftir að leiknum lauk og þá tók við samtal við stuðningsmennina sem voru allt annað en sáttir.

Fyrir pólska liðinu fór markvörðurinn Filip Bednarek sem ræddi hreinskilið við pólsku stuðningsmennina.

„Stuðningsfólk Lech hefur verið um borð í rússíbana í mörg ár; liðið nær góðum árangri og strax í kjölfarið koma högg og léleg úrslit. Ég held að reiði stuðningsmanna sé ekki gagnvart leikmönnum, heldur frekar við stjórnendur félagsins. Þetta er sérstakt ár fyrir Lech sem á 100 ára afmæli, en stjórnendurnir hafa frekar sparað peninginn í staðinn fyrir að fjárfesta betur í leikmannahópnum."

Það er góður möguleiki á því að Lech muni falla úr leik gegn Víkingum. Hvernig verður stemningin þá?

„Ef Lech fellur úr leik í Evrópu, þá verða stuðningmennirnir líklega gríðarlega reiðir. Það er mikið talað um það á samfélagsmiðlum hversu lítið hefur verið lagt í leikmannahópinn - það er að pirra marga þessa stundina og ef liðið dettur út, þá verða menn svo sannarlega ekki sáttir."

Völlurinn ekki fullur en menn láta vel í sér heyra
Stadion Poznań, heimavöllur Lech Poznan, tekur um 43,269 áhorfendur en Cimoszko býst nú ekki við því að leikvangurinn verði fullur á morgun.

„Eftir tapið í fyrsta leiknum þá ákvað félagið að gefa ársmiðahöfum frítt á þennan leik, en fyrir aðra eru miðarnir frekar dýrir og sérstaklega í ljósi þess hve lítil stemning er fyrir liðinu þessa stundina."

„Ég býst ekki við miklum fjölda, kannski að völlurinn verði 20-30 prósent fullur. En stuðningsmennirnir sem mæta þeir munu klárlega láta vel í sér heyra á meðan leiknum stendur. Stuðningssveit Lech er ein sú besta í Póllandi. Andrúmsloftið verður örugglega öðruvísi en það er vanalega fyrir leikmennina frá Íslandi," segir Cimoszko en það verða örugglega mikil læti á leiknum og mikill hávaði þrátt fyrir að leikvangurinn verði ekki alveg fullur.

Veit ekki við hverju á að búast frá Lech
Lech Poznan eru ríkjandi meistarar í Póllandi en liðið hefur farið afar illa af stað á tímabilinu og er í næst neðsta sæti pólsku deildarinnar með eitt stig eftir þrjá leiki.

„Í hreinskilni sagt þá veit ég ekki alveg við hverju ég á að búast við frá Lech. Þeir spiluðu mjög vel á heimavelli gegn Dinamo Batumi um daginn en þeir hafa annars ekki heillað mig mjög mikið - í raun alls ekki. Það hjálpar pólska liðinu að útivallarmörk telja ekki lengur. Þetta verður alls ekki auðvelt. Það væri mjög gott ef þeir myndu ná að skora snemma því annars mun pressan fljótt myndast."

„Hvernig mun þetta enda? Að mínu mati var Lech líklegra liðið fyrir einvígið, en núna er þetta bara 50/50. Möguleikarnir eru jafnir fyrir bæði lið," segir Cimoszko.

Víkingar mættu út til Póllands á mánudaginn og hafa taka góðan undirbúning þar í landi. Leikurinn á morgun hefst klukkan 18:30 að íslenskum tíma og þá kemur í ljóst hvort Víkingar komist áfram eða ekki.

Ef Víkingar ná að komast úr þessu einvígi þá mæta þeir líklega Dudelange frá Lúxemborg í næstu umferð, lokaumferðinni fyrir riðlakeppnina. Dudelange tapaði 3-0 fyrir Malmö í forkeppni Evrópudeildarinnar í síðustu viku. Víkingar eru í möguleika á að verða annað íslenska félagsliðið til að fara í riðlana í Evrópu því kvennalið Breiðabliks tókst að gera það í Meistaradeildinni í fyrra.