mið 10.ágú 2022
Verður í Mount Rushmore af Liverpool leikmönnum
Salah fagnar marki í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Stuðningsmenn Liverpool glöddust mjög þegar Mohamed Salah gerði nýjan samning við félagið í sumar.

Það voru sögusagnir komnar í loftið um að Salah gæti farið annað, en á endanum framlengdi þessi magnaði leikmaður dvöl sína hjá Liverpool.

Þessi þrítugi leikmaður hefur verið einn besti leikmaður heims frá því hann kom frá Roma fyrir fimm árum og hefur hann skorað 118 mörk í 180 deildarleikjum.

Í hlaðvarpsþættinum Enski boltinn á dögunum var rætt um Liverpool og barst Salah auðvitað í umræðuna.

„Salah er að klifra upp einhverja lista þar sem hann getur endað sem einn besti leikmaður í sögu Liverpool," sagði fjölmiðlamaðurinn Atli Már Steinarsson í hlaðvarpinu.

„Hann nær aldrei Ian Rush eða eitthvað en hann verður í Mount Rushmore af Liverpool leikmönnum."

„Það er þannig," sagði skemmtikrafturinn Sóli Hólm og talaði um að Salah gæti búið til eitthvað úr engu, hann væri þannig leikmaður.

Þeir eru á því máli að Salah gæti orðið einhver helsta goðsögn í sögu Liverpool þegar upp er staðið, hann verði kannski einn af fjórum bestu leikmönnum í sögu félagsins og komi sér þannig á Mount Rushmore félagsins.