mið 10.ágú 2022
Vonast til að selja Rúnar erlendis en vita af miklum áhuga innanlands
Rúnar Þór
Sindri Kristinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Þrír lykilmenn Keflavíkur verða samningslausir eftir tímabilið. Það eru þeir Joey Gibbs, Rúnar Þór Sigurgeirsson og Sindri Kristinn Ólafsson.

Fótbolti.net ræddi við Sigurð Ragnar Eyjólfsson, þjálfara Keflavíkur, eftir leik liðsins gegn Leikni.

„Keflavík er ekki með það hátt 'budget' að við getum baris við stóru liðin þegar þau vilja stela frá okkur leikmönnum. En við vonumst til þess að geta selt kannski Rúnar Þór til útlanda frekar en að hann fari til liðs hérna innanlands. Við vitum að mörg lið hérna innanlands hafa talað við hann."

Þarf Keflavík að framlengja við Rúnar til þess að geta selt hann?

„Ég á ekki von á því að við getum það. Við borgum miklu lægri laun heldur en flest liðin fyrir ofan okkur og getum í raun ekki keppt við það. Við erum ekki komnir þangað sem félag."

„Ef við náum að vera í topp sex þá eru allavega bara fimm lið fyrir ofan okkur. Það voru leikmenn sem fóru frá okkur fyrir tímabilið og fóru í FH, tveir. Þeir hafa verið inn og út úr liðinu þar og FH gengur ekki vel. Grasið er ekki alltaf grænna hinumegin."

„Við ætlum að standa okkur virkilega vel í sumar og sjá hvert það leiðir okkur. Ef einhverjir leikmenn fara þá kemur maður í manns stað,"
sagði Siggi Raggi og beindi einnig spurningunni áfram til yfirmanns knattspyrnumála hjá Keflavík.

Luka Jagacic tók við því starfi fyrir um mánuði síðan og hann svaraði spurningum fréttaritara.

„Ég get sagt um þá alla þrjá að það eru viðræður í gangi og núna er bara spurning um að finna niðurstöðu sem báðir aðilar, leikmaður og félag, geta verið sáttir með."

„Varðandi Rúnar þá erum við í daglegum samskiptum við hann. Það er mikill áhugi á Rúnari, ég get staðfest að það er áhugi á honum erlendis frá en ekkert konkret tilboð á borðinu. Við höfum einnig verið upplýstir um að íslensk félög hafa rætt við hann,"
sagði Luka.

Rúnar var nálægt því að ganga í raðir sænska félagsins Sirius í fyrra en það gekk ekki upp vegna meiðsla.