fim 11.ágú 2022
Sambandsdeildin: Víkingur úr leik eftir framlengingu
Mynd: Adam Ciereszko

Mynd: Adam Ciereszko

Mynd: Adam Ciereszko

Mynd: Adam Ciereszko

Mynd: Adam Ciereszko

Lech Poznan 4 - 1 Víkingur R. (4-2 samanlagt)
1-0 Mikael Ishak ('32)
2-0 Kristoffer Welde ('44)
2-1 Danijel Dejan Djuric ('90+5)
3-1 Filip Marchwinski ('96)
3-1 Alfonso Sousa ('117, misnotað víti)
4-1 Alfonso Sousa ('119)
Rautt spjald: Júlíus Magnússon ('109)Víkingur er úr leik í Evrópu eftir hetjulega baráttu gegn pólska stórliðinu Lech Poznan.

Víkingur vann fyrri leikinn 1-0 á heimavelli og byrjaði leikinn í Póllandi af krafti. Ari Sigurpálsson og Helgi Guðjónsson fengu góð færi á upphafsmínútunum en skot þeirra enduðu framhjá markinu.

Fyrirliðinn Mikael Ishak kom heimamönnum yfir á 32. mínútu eftir slakan varnarleik Víkinga. Hann skoraði gríðarlega auðvelt mark eftir að heimamenn komust þægilega innfyrir varnarlínuna.

Pólverjarnir tvöfölduðu forystuna undir lok fyrri hálfleiks þegar Kristoffer Welde skoraði eftir fyrirgjöf frá hægri bakverðinum Joel Pereira. Welde var einn á auðum sjó þar sem Logi Tómasson missti einbeitingu í smástund og var ekki að dekka sinn mann.

Seinni hálfleikurinn var skrautlegur þar sem Víkingar áttu nokkrar marktilraunir en vægast sagt ótrúlegt að heimamönnum í Poznan hafi ekki tekist að gera út um viðureignina. Þeir voru vaðandi í dauðafærum en inn vildi boltinn ekki.

Ingvar Jónsson var kominn í alvöru „sweeper-keeper" stemningu og var marga metra frá marklínunni þegar heimamenn áttu nokkrar af sínum marktilraunum. Víkingar fengu nokkur hálffæri og komust í álitlegar stöður en það var á loksekúndunni sem varamaðurinn Danijel Dejan Djuric kom boltanum í netið og tókst þannig að knýja framlengingu.

Danijel skoraði eftir góðan undirbúning frá Erlingi Agnarssyni sem hafði sloppið innfyrir vinstri bakvörð Poznan. Erlingur gaf góða sendingu á Danijel sem var í hlaupi á fjærstönginni og skoraði af stuttu færi.

Bæði lið voru augljóslega orkulítil þegar komið var í framlenginguna og þokkalegt jafnræði sem ríkti á vellinum. Heimamenn skoruðu þó í upphafi framlengingarinnar þegar Filip Marchwinski fékk of mikinn tíma til að athafna sig rétt utan vítateigs og þrumaði boltanum í netið.

Víkingur fékk nokkur hálffæri eftir hornspyrnur sem þeim tókst ekki að nýta og heildarstaðan 3-2 í hálfleik í framlengingu. Síðari hálfleikurinn fór ekki betur af stað þar sem Júlíus Magnússon var rekinn af velli með sitt seinna gula spjald. Hann fékk spjaldið eftir frábæra tæklingu þar sem hann vann boltann og hefði í raun átt að fá dæmda aukaspyrnu sér í hag.

Annar skelfilegur dómur hjá Austurríkismanninum sem missti af minnst tveimur vítaspyrnudómum í venjulegum leiktíma, þó að Lech Poznan hafi nú átt að fá þær báðar.

Tíu Víkingar reyndu hvað þeir gátu til að sækja jöfnunarmark en heimamenn í Poznan komust í nokkur opin færi áður en þeir fengu dæmda vítaspyrnu. Ingvar Jónsson varði meistaralega frá Alfonso Sousa sem skoraði þó skömmu síðar til að innsigla sigur Poznan. 

Samanlagðar lokatölur 4-2 fyrir Lech Poznan og gríðarlega svekkjandi að hafa verið manni færri í seinni hálfleik framlengingar sökum slæmrar dómgæslu.