fös 12.ágú 2022
Dómarinn kom inn í klefa hjá Víkingum eftir leik
Rauða spjaldið á loft.
Víkingar svekktir í leikslok.
Mynd: Adam Ciereszko

Það má segja að möguleikar Víkinga hafi orðið að engu í gær þegar vægast sagt vafasamt rautt spjald fór á loft í seinni hálfleik framlengingar.

Víkingar mættu Lech Poznan í forkeppni Sambandsdeildarinnar og var seinni leikur liðanna í gær. Víkingar unnu fyrri leikinn 1-0 en töpuðu seinni leiknum 1-4 í framlengingu.

Júlíus Magnússon, fyrirliði Víkinga, fékk á 110. mínútu sitt annað gula spjald og þar með rautt. Bæði spjöldin sem hann fékk voru vægast sagt vafasöm en það var sérstaklega mikil reiði með seinna spjaldið á samfélagsmiðlum.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, sagði frá því í gær að dómarinn - hinn austurríski Julian Weinberger - hefði komið inn í klefa eftir leik og tekið í höndina á leikmönnum.

„Þetta var náttúrulega bara 'bullshit'," sagði Arnar um rauða spjaldið. „Dómarinn gerði klárlega mistök, hann kom inn í búningsklefann og tók í höndina á leikmönnum eftir leik."

„Það er klárt mál samt að betra liðið fór áfram, en það er ef og hefði í þessu. Til þess að komast áfram hefðum við kannski þurft að setja eitt mark í viðbót í Reykjavík. Í svona einvígum, þá lærir þú af þessu. Þetta er búið að vera ævintýri fyrir okkur og góð reynsla," sagði Arnar jafnframt.

Þess má geta að Lech átti augljóslega að fá vítaspyrnu undir lok venjulegs leiktíma, en það var ekki dæmt. Það hefði samt verið áhugavert að sjá hvað hefði gerst ef leikurinn hefði klárast og bæði lið enn með ellefu leikmenn inn á vellinum.