mán 15.ágú 2022
Þvílíkir hæfileikar en fótbolti er ekki hans áhugamál númer eitt
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Stefán Árni Geirsson var í agabanni þegar KR mætti ÍBV um síðustu helgi. Stefán hafði verið of lengi í miðbæ Reykjavíkur skömmu fyrir leikinn.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, sagði í samtali við Fótbolta.net að Stefán gæti verið í hópnum þegar KR mætir Keflavík í Bestu deildinni í kvöld.

„Þetta er bara búið núna. Þetta er ekkert sem mun hanga yfir okkur eða honum. Þetta er hluti af ferlinu, þroskanum og öllu því sem gerist í kringum fótboltann. Við tökum á þessu innanbúðar og svo er þetta búið. Við höldum áfram," sagði þjálfari KR-inga.

Rætt var um Stefán Árna í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardag.

„Það er spurning hjá KR, snýr Stefán Árni úr agabanni? Hann kíkti í miðbæinn," sagði Elvar Geir Magnússon í þættinum.

„Já, er þetta ekki bara einn leikur, allt í góðu og við lifum og lærum. Kannski verður hann ekki í byrjunarliðinu," velti Benedikt Bóas Hinriksson fyrir sér.

Stefán er 21 árs gamall, hefur komið við sögu í átta leikjum í sumar og skorað eitt mark. Hann væri búinn að spila fleiri leiki ef ekki væri fyrir agabannið og meiðsli á tímabilinu. Benedikt spurði Elvar hvernig karakter Stefán væri. Elvar er stuðningsmaður Leiknis þar sem Stefán var á láni tímabilið 2019.

„Ég þekki Stefán Árna, frábær drengur en það verður ekki sagt annað en að hann hafi ekki mikinn fótboltaáhuga. Það eru menn í Vesturbænum sem hafa hugsað að hann gæti jafnvel bara hætt í fótbolta einhvern veginn hvenær sem er. Fótbolti er ekki hans áhugamál númer eitt. En þvílíkir hæfileikar sem hann býr yfir og hann var bara að leika sér að öðrum liðum þegar hann var með Leikni í Lengjudeildinni," sagði Elvar.

„Við munum eftir markinu hans gegn Blikum þar sem hann pakkaði heilu liði saman, þannig hann getur þetta. Ég veit ekki hvernig karakter hann er, ef þú lendir í agabanni þá er oft erfitt að brjóta þér leið aftur inn, ferð kannski aðeins inn í skelina. Rúnar hefur hann alltaf á bekknum allavega," sagði Benedikt.

„Þetta er ekki fyrsti leikmaðurinn hjá KR þar sem hæfileikarnir eru til staðar en hugurinn virðist vera leita einhvert annað en í fótboltann. Við munum eftir Mumma (Guðmundur Reynir Gunnarsson)," sagði Elvar.

Leikur Keflavíkur og KR hefst klukkan 19:15 í kvöld. Keflavík reynir að ná sjötta sætinu af KR en KR reynir að nálgast liðin fyrir ofan sig.

Sjá einnig:
Stefán Árni: Hef unnið í þessu og er einbeittari á fótboltann í dag (8. júní '20)