mið 17.ágú 2022
Elon Musk talaði um að kaupa Man Utd og setti Twitter á hliðina
Elon Musk sagði síðan að um grín væri að ræða, hann sé ekki að fara að kaupa neitt íþróttafélag.
Það varð uppi fótur og fit á Twitter þegar Elon Musk, ríkasti maður heims, sagðist vera að fara að kaupa Manchester United.

Færslan lifði þó ekki lengi því nokkrum klukkustundum síðar sagði hann að um grín væri að ræða, þegar hann var spurður út í hvort honum væri alvara.

„Nei, þetta er langvarandi brandari sem hefur verið á Twitter. Ég er ekki að fara að kaupa neitt íþróttafélag," sagði Musk. „Uppistand er hliðaráhugamál mitt."

En hvað ber framtíðin í skauti sér? Musk bætti svo við að ef hann myndi kaupa eitthvað íþróttafélag þá yrði það Manchester United. Hans uppáhalds lið í æsku.

Margir aðdáendur Manchester United voru farnir að velta því fyrir sér hvernig félagið yrði með Musk sem eiganda, í ljósi þess að hann á eldflaugafyrirtækð SpaceX og rafbílafyrirtækið Tesla.

Manchester United er í tómu tjóni og margir aðdáendur félagsins vilja losna við núverandi eigendur, Glazer fjölskylduna.